18.12.1950
Efri deild: 43. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í B-deild Alþingistíðinda. (1011)

41. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir þetta nál. fjhn. með fyrirvara, en ekki gert frekari ágreining um það. Ég viðurkenni fúslega nauðsyn þess að draga úr kostnaði við ríkisreksturinn. Almennt læt ég í ljós um þetta að varlega verði þó að fara, því að opinberir starfsmenn, einkum ef þeir eru aldraðir, geta átt erfitt uppdráttar, ef þeim er kastað úr embættum. Mér finnst líka vera sparnaður, þó að seinna komi, að hafa því þannig háttað að leggja niður embættin, þegar þau losna. Ég held, að það leiki nokkur vafi á því, hvort nokkur sparnaður er að þessu frv. eða ekki.

Í 61. gr. stjskr. segir svo m.a.: „Þeim dómendum, sem ekki hafa að auk umboðsstarf á hendi, verður ekki vikið úr embætti nema með dómi, og ekki verða þeir heldur fluttir í annað embætti á móti vilja þeirra, nema þegar svo stendur á, að verið er að koma nýrri skipun á dómstólana. Þó má veita þeim dómara, sem orðinn er fullra 65 ára gamall, lausn frá embætti, en eigi skal hann missa neins í af launum sínum.“ Nú er ég í vafa um, hvort hægt sé að nefna þetta því nafni, að verið sé að koma nýrri skipan á dómstólana, þó að eitt dómaraembætti sé lagt niður. En þessi dómari, sem frv. fjallar um, hefur ekki umboðsstarf á hendi. Dómsmrh. er því miður ekki viðstaddur, en frsm. er lögfræðingur, og skilst mér, að hann telji þetta vafa bundið. Ég vildi fá að heyra álit hæstv. landbrh., því að hann hefur verið dómsmrh. og er lögfræðingur. Það sem ég efa er, hvort þessi sparnaður sé ekki á móti stjskr. En þetta er ekki yfirlýsing um andstöðu við frv.