18.12.1950
Efri deild: 43. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í B-deild Alþingistíðinda. (1013)

41. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það skyldi þó ekki fara svo við afgreiðslu þessa máls, að þessi embættismaður verði leystur frá störfum, en verði launaður til æviloka. Ég hef ekki séð það enn þá, en þessi ríkisstjórn ber fram frv., svo að skattsvikarar landsins geti leikið lausum hala. Embættismenn hafa lítið látið til sín taka, en ég skal ekki fara út í það. Þetta er eitt af sex eða sjö ríkisembættum, sem lagt er til, að verði lögð niður. Það sést á fjárl., að embættismönnunum er fjölgað um 10, en ekki fækkað, ef þessu embætti er svo bætt við þá er nú minna hægt að ræða um sparnað hjá ríkisstj. Ég hefði talið, að í staðinn fyrir að leggja þetta embætti niður ætti að fara aðra leið, að lögbjóða samvinnu milli skattdómara og skattstjóra, og sú sérstaka breyt., að skattdómari hafi sjálfur framkvæmdavald til að höfða mál, ef hann telur, að um skattsvik sé að ræða. Það hefði verið bezta leiðin og ekki ólíklegt, að tekjuskatturinn hefði skilað sér betur og verið hægt að vinna með því upp embættislaun þessa manns. Reynslan sker úr því, hvort hann verður leystur frá störfum, en samt sem áður launaður til æviloka. En ég tel hitt réttara, að herða á ákvæðum um þetta atriði.