18.12.1950
Efri deild: 43. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í B-deild Alþingistíðinda. (1019)

41. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Gísli Jónsson:

Mér fannst á svari hæstv. landbrh., að hann hefði misskilið mín ummæli. Ég vil taka það fram, að ég hef aldrei ásakað hæstv. ráðh. fyrir að vera með því að koma l. á eða veita þessum manni, sem við erum sammála um, að hafi verið ágætur maður, starfið. Mér fannst einnig í ræðu hans koma fram, að það lægi eitthvað annað á bak við þetta frv. heldur en sparnaður, og ég vil sérstaklega undirstrika það, þegar hann gengur fram hjá beinum fyrirspurnum, sem d. á kröfu á að fá svarað frá hæstv. ríkisstj., og mínar fyrirspurnir voru þannig, að það er engin ástæða til að ganga framhjá þeim. — Ég sé, að hæstv. fjmrh. er kominn í d., og vildi ég því endurtaka þessar fyrirspurnir: Hvaða sparnaður var hugsaður, þegar felldur var niður úr fjárl. kostnaður við skattdómarann? Var hugsað að spara alla þá upphæð, eða var hugsað að spara einhvern hluta af þeirri upphæð, og hvers vegna var þá ekki sá hluti tekinn í fjárl.? Því að það hefur komið fram við þessar umr., að menn eru ekki á eitt sáttir um það, hvort hægt sé að spara nokkuð af upphæðinni. Nú kom það fram hjá hæstv. ráðh., að hann er sammála mér um að leggja þetta embætti niður, af því að viðkomandi maður, sem hefur starfað í 8 ár, hefur ekki fellt dóm nema í einu máli, en tekið fyrir þrjú mál. En hinir ýmsu dómsmrh., sem setið hafa síðan 1942, hafa alltaf haft möguleika til þess, ef þeim hefur þótt vera nægileg ástæða fyrir hendi, að finna að embættisrekstrinum eða setja annan mann í embættið, ef maðurinn hefur verið svo veikur, að hann hafi ekki getað sinnt starfinu, en það fannst mér vera aðalástæðan hjá hæstv. ráðh., að maðurinn hafi verið svo heilsulaus öll þessi ár, að hann hafi ekki getað sinnt þessu starfi betur en gert hefur verið, að honum hefur tekizt að dæma eitt mál, en rannsaka tvö. En þá átti að fara inn á aðra braut, ef þetta var aðalástæðan. En ef ástæðan er sú, að það eigi að spara og þetta sé ein af sparnaðartill. ríkisstj., þá átti að spara þá upphæð, sem var í fjárl., þ.e. laun skattdómara, þá átti að gera ráð fyrir því, að hann væri annaðhvort settur í annað embætti eða gera samkomulag um að taka hann inn á fjárl., eftir að þessi l. verða staðfest. Nú kom hv. 11. landsk. með ágæta till. í þessu máli, að það sé ekkert að gera við þennan mann annað en að setja hann sýslumann í Dalasýslu, eftir að hv. 11. landsk. hefur lagt upp laupana. Ég hef aldrei haldið, að það væri mikið verk að vera sýslumaður í Dalasýslu, en ég hef aldrei haldið, að það væri svo lítið verk, að það væri ekki meira en að dæma eitt mál, en nú lýsir hv. 11. landsk. því yfir, að það sé svo lítið verk að vera sýslumaður í Dalasýslu, að þessi maður geti tekið við af sér, eftir að hann er þá búinn að lýsa Dalamönnum þannig, eins og hann gerði nýlega, að þeir séu allra mestu skattsvikarar landsins. Það hlýtur því eitthvað að liggja á bak við það, að slíkir menn eigi að fá skattdómarann fyrir yfirvald. — Í sambandi við það, sem hv. 6. landsk. sagði, að það væri ekki rétt að leggja til að afnema skattal., þó að þau væru brotin, þá vil ég benda honum á það, að einmitt vegna þess að það er alls staðar orðið viðurkennt, að skattal. eru þannig, að svo að segja hver þegn brýtur þau, eins og skattdómarinn hefur fellt dóm um, þá er eitthvað rotið við slík l. Þau eiga engan rétt á sér hjá þjóðinni, þegar hver maður brýtur þau, og þá er bezt að afnema þau. Þess vegna er engin ástæða til þess að halda skattdómaranum og engin ástæða til að halda skattal., heldur á að afnema hvort tveggja, og þess vegna tek ég þessa afstöðu, að ég vil, að hvort tveggja sé afnumið.