18.12.1950
Efri deild: 43. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í B-deild Alþingistíðinda. (1020)

41. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Það var út af þessari fyrirspurn hv. þm. Barð., að stj. hefði þann hátt að leggja fram nokkur frv. um sparnað, leggja niður embætti flugmálastjóra, loðdýraræktarráðunautar og skattdómara, og svo stæðu ekki í fjárlfrv. neinar greiðslur til þessara embætta á árinu 1951, og hann spurði, hvernig þetta yrði, þegar það kæmi til framkvæmda. Það má vera, að ríkið þurfi að greiða þessum mönnum nokkra mánuði, og mundi það þá koma eins og önnur útgjöld, sem skylt er að inna af hendi, og má kannske segja, að rétt hefði verið að gera ráð fyrir þessu í fjárl., en af því að óvissa var um, hvernig þetta yrði, þótti rétt að nema burt úr fjárl. laun þessara starfsmanna og annan kostnað við þessi störf. Um skattdómaraembættið er það að segja, að það hefur ekkert gagn að því orðið. Það hefði verið hægt að rannsaka allt að einu þessi þrjú mál og dæma í þessu eina máli, þó að ekki hefði verið fastur maður í því allan þennan tíma, svo að þetta fyrirkomulag hefur alls ekki reynzt heppilegt. Það fæst því ekkert fyrir kostnaðinn við embættið. Hitt er annað mál, að um það má deila, hvort stofna ætti annað embætti í þess stað með öðru verksviði. En það, sem stj. festir sig hér við, er að losna við óþarfa útgjöld.

Þetta yrði þá að athuga um leið og skattal. eru endurskoðuð og koma fyrir öðruvísi málarekstri út af skattamálum.