28.11.1950
Neðri deild: 29. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í B-deild Alþingistíðinda. (1038)

33. mál, gengisskráning o.fl.

Gísli Guðmundsson:

Ég hef ekki tekið eftir því, að hæstv. viðskmrh. hafi mælt fyrir till., sem hann flytur hér á þskj. 158 og nú er á dagskrá. En í sambandi við þessa till. hefði ég viljað beina fyrirspurn til hæstv. ráðh. Brtt. 158 er um það að fella niður 1., 2. og 3. málsgr. 11. gr. l. um gengisskráningu, launabreytingar, stóreignaskatt, framleiðslugjöld o.fl. 1. málsgr. er um það, að lagt skuli framleiðslugjald á verðmæti tiltekinna sjávarafurða, sem nýju togararnir afla, 2. málsgr. um það að leggja framleiðslugjald á hvalafurðir og 3. málsgr. er um það, til hvers þessum tekjum skuli varið, sem þannig eru innheimtar.

1.–3. málsgr. 11. gr. l. hljóða svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Framleiðslugjald skal lagt á verðmæti þeirra sjávarafurða, sem nýju togararnir afla, hvort sem þeir leggja afla sinn hér á land eða selja hann erlendis. Ef aflinn er ísfiskur, sem seldur er erlendis, skal gjaldið lagt á aflaverðmæti, sem er umfram £ 8.500 brúttó í söluferð, áður en útflutningsgjöld, tollur og löndunar- og sölukostnaður er frá dregið. Ef sala í tveimur næstu söluferðum á undan hefur numið lægri fjárhæð en £ 8.500 í söluferð að meðaltali, skal heimilt að draga það, sem á vantaði, frá gjaldskyldri fjárhæð. Gjaldið skal nema 25% af því, sem er umfram £ 8.500 sölu. Gjaldið skal tekið af óskiptum afla, þannig að ekki skal reikna aflaverðlaun eða annan hlut af þeim hluta andvirðisins, sem tekið er með þessu gjaldi. Af brúttó verðmæti sjávarafurða nýju togaranna, annarra en ísfisks og síldar, skal greiða 10%. Verðmæti þessa afla skal metið af þriggja manna nefnd, er ríkisstj. skipar, og skal hún miða við gangverð afla upp úr skipi á hverjum stað.

Útflutningsgjald skal lagt á hvalafurðir og nema 10% af útflutningsverðmætinu. Framangreindu framleiðslugjaldi skal varið samkvæmt fyrirmælum fjárlaga í lánveitingar til hraðfrystihúsa, sem byggð eða endurbyggð hafa verið á tímabilinu frá 31. des. 1945 til 31. des. 1949 og eigi hafa fengið lán úr Stofnlánadeild sjávarútvegsins. Þegar því er lokið, skal framleiðslugjaldinu varið til að standa straum af og endurgreiða skuldir ríkisins, sem myndazt hafa í sambandi við togarakaup, ábyrgðargreiðslur og aðrar ráðstafanir og framkvæmdir í þágu sjávarútvegsins á liðnum árum, og því næst til að greiða önnur útgjöld ríkisins.“

Samkv. þessari gr. er þessu framleiðslugjaldi, sem hér er lagt til að verði fellt niður, ráðstafað á sérstakan hátt, til þess að annast lánveitingar til hraðfrystihúsanna, sem byggð hafa verið eða endurbyggð frá 1945–1949. En þannig er þetta til komið, að hraðfrystihúsin, flest þeirra, munu hafa fengið vilyrði frá nýbyggingarráði um það, að þeim yrði veitt lán úr stofnlánadeild sjávarútvegsins, og svo mun ekki hafa verið hægt að standa við það, sem um var talað í því efni, þar sem fé er ekki fyrir hendi í stofnlánadeildinni, og var þá þetta fé, sem þarna átti að taka, ætlað til þess að bæta úr fyrir þessum aðilum. Það var á sínum tíma talin mikil þörf á því að sjá fyrir lánsfé í þessu skyni, og má benda á það sem sönnun fyrir því, að sú þörf er fyrir hendi, að af hálfu ríkisstj. hefur hvað eftir annað verið tekin upp heimild í fjárl. um ríkisábyrgð á einhverju slíku fé til hraðfrystihúsanna, en það fé hefur ekki verið fyrir hendi, og var því ætlað að vera fyrir hendi að einhverju leyti með þessu ákvæði. Það má vel vera, þó ekki hafi verið gerð grein fyrir þessari brtt., að það hafi verið mikil þörf að fella niður framleiðslugjaldið, a.m.k. á afurðum togaranna; þó skil ég ekki, hvers vegna jafnframt er lagt til að fella niður gjald af hvalafurðum. Í þessu sambandi vildi ég spyrjast fyrir um það hjá hæstv. ráðh., hvort eitthvað hafi verið hugsað fyrir því, á hvern hátt yrði bætt upp það tjón, sem þeir aðilar, sem þarna eiga hlut að máli, hraðfrystihúsin, verða fyrir við það, að þessi ákvæði eru felld niður, því að ég get ekki séð, að það geti verið framkvæmanlegt að fella þetta ákvæði, framleiðslugjaldið, niður, nema jafnframt sé eitthvað gert til þess að bæta upp þetta tjón.