28.11.1950
Neðri deild: 29. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í B-deild Alþingistíðinda. (1042)

33. mál, gengisskráning o.fl.

Finnur Jónsson:

Ég hef veitt því eftirtekt, að þessi brtt. frá hæstv. viðskmrh. nær ekki til síðustu málsgr. 11. gr. þessara l., en við hana munu ef til vill liggja fyrir bráðabirgðal. frá hæstv. ríkisstj. Ég hefði talið, af því að ég hygg, að það sé ekki búið að afgr. það mál enn þá, að rétt væri, að þessi till. hæstv. ráðh. næði einnig til síðustu málsgr. Samkv. yfirlýsingum þeim, sem hæstv. ríkisstj. gaf, þegar mál þetta var til afgreiðslu, og hefur ítrekað nú, var ekki ætlunin að leggja þessi gjöld á taprekstur. En þegar ákveðið var bræðslusíldarverð í sumar og einnig þegar ákveðið var verð á síld til söltunar, var gert ráð fyrir, að þetta gjald yrði greitt, og vegna þess var bræðslusíldarverðið ákveðið um 10 kr. lægra a.m.k. á mál og saltsíldarverðið 15–20 kr. lægra á tunnu. Síldarútgerðarmenn og sjómenn hafa því fengið mun lægra verð fyrir síldina en verið hefði, ef þetta gjald hefði ekki verið innheimt á sínum tíma. Það mælir því öll sanngirni með því, að þetta gjald verði endurgreitt til síldarútgerðarmanna og síldarsjómanna. Ég hafði haldið, að í bráðabirgðal. væri eitthvert ákvæði um þetta, en ég hef ekki getað séð það í þskj. og vildi gjarnan mega athuga málið nánar og væntanlega flytja brtt. við þessa eða næstu umr. málsins.