28.11.1950
Neðri deild: 29. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í B-deild Alþingistíðinda. (1043)

33. mál, gengisskráning o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. viðskmrh. sagði, að það væri alveg rangt, að þetta hefði verið ein af hindrununum fyrir því, að samningar hefðu náðst á togurunum. Hæstv. ráðh. hefur sjálfur sagt í sinni fyrri ræðu, að þetta atriði hafi verið höfuðþáttur í samningum milli útgerðarmanna og sjómanna. Og þá er nokkurn veginn rökrétt ályktun af því, að það, sem var höfuðþáttur í samningunum, hafi einnig verið höfuðþáttur í því að koma viðkomandi deilu af stað. Eitt af því, sem útgerðarmenn hafa reiknað með, þegar þeir stöðvuðu togarana, er þetta gjald. Þeir reiknuðu með því í sínum rekstrarútgjöldum. Það komu oft til n. og hæstv. ríkisstj. fulltrúar frá botnvörpuskipaeigendum, meðan gengisfellingarl. voru til umr., sérstaklega til að fara fram á að fá þetta ákvæði fellt burt. Það er því gefið, að togaraútgerðarmenn hafa reiknað með þessum útgjaldalið sem einu af því, sem þeir yrðu að standa undir. Hitt er annað mál, að þegar togararnir eru stöðvaðir og stöðvunin er farin að standa nokkurn tíma og valda erfiðleikum, þá segir hæstv. stj. við togaraeigendur, að hún vilji láta gjaldið falla niður. En það kemur ekki í bága við það, að betra hefði verið, ef hæstv. stj. hefði farið þá leið að sníða þennan galla af strax. Ég held því, að það sé ekki rangt til getið hjá mér, að ef þetta ákvæði hefði ekki verið sett í gengisbreytingarlögin, þá væru miklar líkur til, að unnt hefði verið að afstýra togaradeilunni. Ég held, að það sé rétt afleiðing, sem ég dró af því, að það hefði gjarnan mátt taka meira tillit til þess, sem fram kom frá hendi stjórnarandstöðunnar í máli eins og gengisfellingunni.

Hæstv. viðskmrh. segir svo, að það gæti verið, að ég hefði sagt, að það mundi verða erfitt með ísfiskinn, en það hefði a.m.k. ekki verið hægt að sjá það fyrir. Það var ekkert einstakt þetta með ísfiskinn. Hæstv. ráðh. er kannske búinn að gleyma, hvaða forsendur voru fyrir gengislækkuninni. Þær byggðust ekki aðeins á ísfiskinum, heldur einnig á verði á freðfiski. Í grg. er talað um 93 aura verð á freðfiski. En hvað gerist svo? Þegar gengisbreytingarlögin eru til umr., er upplýst í fjhn. af fulltrúum útvegsins, og það muni verða lækkað verð á fiskinum, sem keyptur er af hraðfrystihúsunum, ekki aðeins í 85 eða 75 aura, sem var fiskábyrgðarverð, heldur jafnvel niður í 65 aura. Hvað gerði hæstv. ríkisstj. í sambandi við það? Hún ræddi þetta ekki, hún lét sem vind um eyrun þjóta allar staðreyndir um ísfiskmarkaðinn í Englandi og stöðvun togaranna og yfirvofandi lækkun á freðfiski.

Ég vildi aðeins segja þetta vegna þess, að hæstv. ráðh. vildi láta lita svo út, að það kynni að hafa verið, að einhverjir þm. hefðu sagt eitthvað í þessa átt, en almennt hefði það ekki verið vitað. Jú, það var almennt vitað, en hæstv. ríkisstj. vildi byrgja staðreyndirnar og ekki einu sinni láta þær koma fram fyrir þingmeirihlutann, það var verið að berja hausnum við steininn.

Hins vegar vil ég ítreka það, sem ég sagði viðvíkjandi 3. málsgr. Ég held, að heppilegt væri að eitthvað væri gert til að bæta það, sem ég býst við, að hafi verið tilgangur hæstv. stj., þegar þetta var samþ., að finna einhverja skynsamlega leið til að grynna á skuldum hraðfrystihúsanna.