28.11.1950
Neðri deild: 30. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í B-deild Alþingistíðinda. (1051)

33. mál, gengisskráning o.fl.

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég verð að láta í ljós undrun yfir brtt. hv. þm. Ísaf., sérstaklega af því að hann veit, að þessu máli er löngu ráðið til lykta. — Er lögin voru sett, var ákveðið, að lagt skyldi þar gjald á sjávarútveginn. Það er heimilað í l. að láta þetta gjald niður falla, ef meðalafli á nót yrði minni en 3000 mál, en hluta af því, ef aflinn væri undir 6000 málum. Er S.R. voru að taka ákvörðun um, hvað þær vildu greiða fyrir síldina og eftir að ákveðið var að greiða 65 kr. fyrir málið, lýsti framkvstj. S.R. yfir, að ef aflinn yrði minni en 500 þús. mál til S.R., þá mundi atvmrh. fá heimild til að fella niður þetta gjald, og vildi hann, að það rynni til S.R.

Ég sagði honum, að þetta kæmi ekki til mála, því að ef aflinn brygðist, þá mundi það renna til hallarekstrar á bátaútveginum og verksmiðjanna, og hefði það vakað fyrir okkur, að niðurfelling gjaldsins kæmi báðum aðilum til framdráttar.

Framkvstj., Sig. Jónsson, rökstuddi sína málaleitan með því, að ef S.R. fengju ekki þessi 500 þús. mál, þá gætu S.R. ekki staðið undir þessu verði. Ég játaði það, að ef aflinn yrði ekki 500 þús. mál til S.R., þá gætu þær ekki staðið undir verðinu, en bar fram þau gagnrök, að afli bátanna væri þá ekki svo mikill, að þeim veitti af sínu, enda fór landssambandið fram á, að bátarnir fengju allt, en ég sagði, að gjaldinu yrði skipt, en vissi þá ekki, hvernig skiptingin yrði.

Nú þegar aflabresturinn kom í ljós, þá reis þessi spurning að nýju, og ég hef ekki talað um það við neinn eins mikið og hv. þm. Ísaf., og er honum ljóst, að löngu er búið að ákveða þetta, og það, sem atvmrh. hefur gert í þessu, verður ekki tekið aftur.

Mér finnst það ganga úr hófi fram, að hann skuli flytja þessa brtt. Það má færa fullgild rök fyrir því, að útgerðarmönnum veitti ekki af hverjum eyri, en einnig mætti færa fram jafngild rök fyrir því, að S.R. veitti ekki af gjaldinu heldur. Ég var á frumstigi þessa máls búinn að binda mig, en ég hef ekki gögnin við höndina og get ekki gefið skýrslu um, hvaða mánaðardag það var. En ég býst ekki við, að hv. þm. Ísaf. beri brigður á, að þetta var gangurinn í málinu. Þessu er ekki hægt að rifta, en ef menn vildu láta útgerðarmenn fá aukið fé, mætti ræða það sér.

Ég verð að biðja menn afsökunar á, að ég verð að lesa þessa till. aftur, til þess að trúa því, að hún sé frá hv. þm. Ísaf. Mér virðist vera einhver misskilningur í henni, a.m.k. get ég ekki skilið hana. Ef hv. þm. á við það, að endurgreiða eigi það, sem búið er að innheimta, stenzt till. samt ekki, því að ef það hefur verið innheimt, ber að skila því til sömu aðila. Till. getur því ekki staðizt. Mér leikur forvitni á, hvað till. felur í sér, en ég heyrði ekki framsögu hv. þm., en þar getur skýringin e.t.v. hafa komið fram.

Ég afhendi hæstv. forseta till. og bið hann um að koma mér til hjálpar og segja til um, hvað till. þýðir.