18.12.1950
Efri deild: 43. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í B-deild Alþingistíðinda. (1071)

33. mál, gengisskráning o.fl.

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég á hér brtt. á þskj. 399, um það, að í stað 4., 5., 6. og 7. mgr. 6. gr. gengisbreytingarlaganna komi ný mgr. svo hljóðandi, sem verður þá 1. gr. laganna: „Frá 1. febrúar 1951 skulu laun ekki taka breytingum samkv. ákvæðum þessara laga.“ Breyting sú, sem verður á l., ef þessi till. verður samþ., er því einvörðungu sú, að í stað þess að í l. eins og þau nú eru er miðað við 1. ágúst 1951, en hér er miðað við 1. febr. Að öðru leyti er engin breyting gerð á l., og þetta ákvæði er á engan hátt nokkur binding á kaupgjaldi, heldur er fellt úr gildi að kaup sé lengur tekið samkv. vísitölu, þannig að kaupgjald er ekki lengur lögbundið. Ég er hér einnig með aðra brtt. skriflega, sem ég ætlast til að bætist við hina till., en það stendur svo á henni, að þegar fjárl. voru samþ. nú fyrir helgina, vissi ríkisstj. ekki annað, eftir upplýsingum hagstofunnar, en að vísitalan væri 122 stig, en nú í dag hefur kauplagsnefnd ákveðið, að hún skuli vera 123 stig. En þar sem búið er að samþ. fjárl., sem ganga út frá vísitölu 122 stigum í jan., og vegna þess, að ekki er hægt að breyta fjárl., þá var talið rétt, að ákveðið skyldi í þessum l., að verðlagsvísitala fyrir janúar 1951 skyldi miðuð við 123 stig.