18.12.1950
Efri deild: 43. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í B-deild Alþingistíðinda. (1074)

33. mál, gengisskráning o.fl.

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Samkv. brtt. hæstv. ráðh. á að gera þær breytingar á gengisbreytingarlögunum, að ákvæði þeirra um verðlagsuppbót á launagreiðslur, sem áttu að gilda til 1. ágúst næstkomandi, skuli nú falla úr gildi 1. febrúar næsta árs. Þegar frv. um gengislækkunina var lagt hér fyrir, þá fylgdi því ýtarleg greinargerð og margar og langar ræður voru fluttar til að fylgja því úr hlaði, og rauði þráðurinn, sem gekk í gegnum allan þann málaflutning, var sá, að um það leyti, sem launagreiðsla samkv. vísitölunni yrði felld úr gildi, ætti árangur gengisbreytingarinnar að vera kominn í ljós. Þá ætti það misræmi, sem þá ríkti í atvinnumálum þjóðarinnar, að vera jafnað og jafnvægi komið á. Og það var þá ekki talið fært að fella niður ákvæðin um lögbundið kaupgjald, fyrr en þessum markmiðum væri náð. Skjótt á litið mætti því virðast svo, að hæstv. ríkisstj. hefði verið svo sköruleg og sannspá í þessum málum, að spádómar hennar hefðu rætzt 6 mánuðum fyrr en hún gerði ráð fyrir. Á annan veg er ekki hægt að rökstyðja þessa brtt. hæstv. ráðh., nema þá að það hafi verið markleysa ein allt það, sem fært var fram sem rök með gengisbreytingarlögunum. Það er ef til vill réttast að láta hæstv. ríkisstj. um það að meta, hvor þessara tveggja skýringa er rétt. Ég sagði meta, sem er þó auðvitað ekki rétta orðið í þessu tilfelli, því að reynslan hefur sýnt, að ekkert af þeim spádómum og fyrirheitum, sem fylgdu gengisbreytingarlögunum, hefur rætzt. Og þar verður ekki aðgerðaleysi ríkisstj. eingöngu um kennt, heldur kemur þar einnig til, að þau voru reist á fölskum grundvelli í upphafi. Hver er þá ástæðan til, að hæstv. ríkisstj. leggur þessa brtt. fram, úr því að þessu jafnvægi, sem talið var að þyrfti, hefur ekki enn verið náð? Hún er sú, að nú býst hæstv. ríkisstj: við því, að enn ein ný dýrtíðaralda sé að rísa yfir þjóðina. Þess vegna hyggst hún nú gera ráðstafanir til þess að tryggja það, að hún lendi á þeim, sem að hennar dómi eigi að nota til slíks. Þegar gengisbreytingarlögin voru samþ., þá var það játað af flm. og formælendum þeirra, að þó að horfurnar væru svo glæsilegar og árangurinn svo viss sem þeir létu, þá væri þó ein hugsanleg veila í sambandi við þau, sem gæti komið í ljós, sem sé sú, að verkalýðurinn í landinu hefði ákvæði laganna að engu og mundi knýja fram meiri kauphækkanir en lögin þyldu. Það kom greinilega fram í umr., að meginótti formælenda laganna var sá, að verkalýðurinn mundi ekki láta sér nægja þær kauphækkanir, sem lögin leyfðu. En ef hann gengi ekki lengra í kröfum sínum, þá væri enginn vafi á því, að ástandið mundi stórum batna og trygging fást fyrir því, að verðlagið héldist óbreytt, vörur yrðu nógar og afkoma útvegsins örugg. Í þessu sambandi er einmitt rétt að rifja upp, að verkalýðsstéttin hefur sýnt furðulegan þegnskap í þessum málum og sætt sig við þau ákvæði, sem í lögunum standa, jafnvel þótt komið hafi í ljós, að áætlanir formælenda gengislækkunarlaganna um það, hve dýrtíðin yrði mikil, hafi reynzt fals eitt, og verðhækkunin, sem átti samkv. þeim áætlunum að nema 11–13% til ágústmánaðar 1951, var orðin í október s.l. 22%, eða um helmingi meiri en hún átti áð verða á 15–18 mánuðum. Þrátt fyrir þetta hafa verkalýðssamtökin ekki notað sinn rétt til að brjóta ákvæði laganna um launagreiðsluna. Það er því ekki hægt að segja annað en verkalýðurinn hafi sýnt langlundargeð í þessum efnum og hafi gefið ríkisstj. tækifæri til að sýna ágæti þessara laga. En hvernig er svo ástatt t.d. fyrir þeim atvinnuveginum, sem gengisbreytingarlögin áttu sérstaklega að skapa framtíðaröryggi? Sessunautur minn, hv. þm. Vestm., orðaði það svo á fundi hér fyrir nokkrum dögum, að „vandamál útvegsins hafa aldrei verið til líka svo erfið sem nú“. Hafa þó vandamál útvegsins oft verið erfið, en þó segir þessi þm., að þau hafi aldrei verið til líka jafnerfið og nú, eftir að búið er að tryggja varanlegt framtíðaröryggi hans. Hæstv. ríkisstj. hefur gætt þess mjög vel að leyna Alþingi með öllu hugleiðingum sínum um það, hvernig hún ætlaði að fara að því að mæta þessum vanda útvegsins. Að sjálfsögðu mun hún ekki hjá því komast eftir jólafríið að skýra frá ætlun sinni í þeim málum, en grunur minn er sá, að þær ráðstafanir verði ekki almenningi að kostnaðarlausu, og að það sýni sig, að verkalýðurinn hafi ekki ætíð óbundnar hendur um verð á sinni vinnu, þótt þessi brtt., sem hér er verið að ræða um, nái fram að ganga. Ég drap á það áðan, að allar horfur væru á, að ný verðhækkunaralda væri í aðsigi, og að hæstv. ríkisstj. gerði nú þær ráðstafanir, sem henni þætti viðeigandi, til að mæta þeirri hækkun. Ég skal í því sambandi minna á, að húsaleigulögin, sem veitt hafa mörgum manninum vernd gegn óhóflegri húsaleigu og gegn því, að honum yrði fleygt út á götu, eiga nú að syngja sitt síðasta vers og verða brátt úr sögunni. Einnig að verið er að draga meira og meira úr verðlagseftirlitinu ag fleiri og fleiri vörutegundir gerðar óháðar því. Vinnumiðlunarskrifstofurnar er ætlunin að leggja niður eða láta þær í hendurnar á pólitískum meirihlutum bæjarstjórnanna. Tryggingarnar á að vísu ekki að skera niður, en þær eiga að nota sjóði sína til að greiða bætur á meðan þeir endast, en hvað svo tekur við, er sjóðirnir eru orðnir þurrir, þori ég varla að spá. En þetta allt er nú ef til vill tiltölulega smátt í augum hæstv. ríkisstj. Hitt verður áreiðanlega til að auka meira á erfiðleikana í framtíðinni. Alheimsástandið er nú þannig, að verðlag fer hækkandi með mánuði hverjum. Einstakar vörutegundir hækka gífurlega og horfur á, að svo verði áfram. Kóreustyrjöldin hefur sín áhrif, og útlitið í alþjóðamálunum er beint framhald af því. Það er því augljóst, að hæstv. ríkisstj. getur ekki dregið það lengur að gera ráðstafanir til þess, að vélbátaflotinn geti hafið veiðar á venjulegum tíma. Ég veit ekki, hvort hún hefur í huga að hefjast handa og hvað þá, en það liggur einhvern veginn í loftinu, að það ráð, sem hún hyggst nota, sé snjallræði, sem hún hafi fengið að láni hjá kommúnistum. Sem sagt, að það eigi að koma á tvöföldu eða breytilegu gengi, og verði það mismunandi á vörunum, eftir því hvaðan þær koma og hvert þær eru seldar. M.ö.o., útvíkkun á gotu- og hrognapeningakerfinu. Ef þessi ráðstöfun er í aðsigi, þá hlýtur öllum að vera það ljóst, að gífurleg verðhækkun er framundan. Loks er svo að minnast á jólagjöf hæstv. ríkisstj., sem er nýjar álögur á alþýðuna, eða hækkun óbeinu skattanna um 9,5 millj. króna eftir áætlun ríkisstj. sjálfrar, en mun í rauninni verða nokkuð hærri upphæð. Þetta eru þær ráðstafanir hæstv. ríkisstj., sem sumpart eru fram komnar og sumpart væntanlegar til að auka verðbólguna í landinu, og þeim til viðbótar kemur svo skortur á viðleitni til að spyrna gegn dýrtíðinni. Hæstv. ráðh. sagði, að verkamönnum væri frjálst að ákveða verðið á sinni vinnu, og svo væri allt í himnalagi. En skyldu það ekki verða fleiri en þeir einir, sem ákveða kaupgjaldið? Ekki sízt, þegar þess er gætt, að framundan er vaxandi dýrtíð, og þess einnig, að einmitt á þeim tíma, sem verðlagsákvæðin um kaupgjald eiga að falla úr gildi, er mjög lítið um atvinnu og sá tími, sem einna erfiðastur er verkamönnum. Enda er auðvelt að haga svo til, að eftirspurn eftir vinnu sé á þeim tíma minni en framboðið á verkafólki. Og ekki er mér grunlaust um, að reyndin verði sú.

Hæstv. ráðh. hefur öðru að sinna en hlýða á mál mitt, svo að ég mun ekki hafa þessa ræðu öllu lengri. En ég vildi aðeins geta þess, að ég tel, að gegn þeim erfiðleikum, sem nú eru framundan, eigi að snúa sér á þveröfugan hátt við þann, sem hæstv. ríkisstjórn beitir. Því að einmitt vegna þess, hve framtíðin er óviss, þá ber að mæta erfiðleikunum með því að láta vísitölubætur á kaupgjaldið koma örar en nú, þannig að það hækki eða breytist mánaðarlega eftir vísitölu næsta mánaðar á undan. Eins og ég sagði áðan, þá er það sýnt, að vísitalan hefur að undanförnu hækkað helmingi örar en gert var ráð fyrir af hæstv. ríkisstjórn, og nú er greitt kaup eftir vísitölunni 415, sem átti að gilda fyrir júlí s.l., þó að hún sé nú 8 stigum hærri. Þetta er beint brot á þeim loforðum, sem gefin voru, er gengislækkunarlögin voru sett. Þess er því að vænta, að úr þessu verði bætt hið fyrsta, og teljum við Alþýðuflokksmenn rétt að koma hér fram með brtt. þess efnis, að vísitölukauphækkunin verði greidd mánaðarlega.