18.12.1950
Efri deild: 43. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í B-deild Alþingistíðinda. (1079)

33. mál, gengisskráning o.fl.

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég gat þess hér í dag, að ekki hefði unnizt tími til að gefa út nema skriflegt nál. í þessu máli og að ég tæki þá aftur þá brtt., sem borin var fram í nefndinni. Nú hefur nefndarálitið verið prentað á þskj. 449 og útbýtt. Nú er samkomulag um að bera fram þá brtt., eins og nefnt þskj. sýnir, að í 12. gr. í stað orðanna: „Á árinu 1950“ komi: Fyrir febrúarlok 1954. — Eins og lögin eru nú, átti að leggja sérstakan skatt á einstaklinga, en því verki er nú ekki lokið, og þótti því rétt að framlengja frestinn til febrúarloka næsta árs.

Þá hefur einnig orðið að samkomulagi að bera fram eftirfarandi brtt. við 3. gr.:

„Skattur skv. 12. gr. laga þessara skal ákveðinn af skattstjóranum í Reykjavik, sem einnig úrskurðar kærur út af álagningu skattsins. Úrskurði hans má þó áfrýja til ríkisskattanefndar.“

Það þótti óeðlilegt að takmarka ákvörðun skattsins af skattstjóra einum. Enn fremur þótti það eðlilegt, að skattgreiðendur og fjmrh. geti hvorir um sig skotið úrskurði ríkisskattan. til dómstólanna, enda ákveðið með reglugerð. Það þótti ógerlegt, bæði fyrir skattgreiðendur og ráðh., að hafa ekki þennan rétt. Það gæti vel farið svo, að skattgreiðandi fengi leiðréttingu sinna mála hjá ríkisskattan., en hæstv. fjmrh. þætti úrskurður hennar ganga ríkissjóði í óhag, og væri þá eðlilegt, að hvor aðilanna um sig fengi úrskurð dómstólanna um, hvort úrskurður ríkisskattan. væri réttur eða rangur. Þetta er auðvitað sérstaklega principatriði, en það var fullt samkomulag í n. um að setja þetta atriði inn. Annað hafði n. ekki sérstaklega við frv. að athuga, en ég vildi aðeins segja við hæstv. ráðh., sem bar það fram, í sambandi við brtt. á þskj. 399, að eðlilegra hefði þótt að fella umræddar greinar alveg úr gildi heldur en gera þær óvirkar, eins og þar er gert ráð fyrir. Þetta er að sjálfsögðu formsatriði, og skal ég ekki fara nánar út í það, þar sem tími er svo naumur.

Ég vil fara örfáum orðum um það, sem kom fram hjá hv. 4. þm. Reykv. og hv. 6. landsk., þó að ég viti, að ráðh. muni svara þeim fyrirspurnum, sem þar komu fram. Ég tel rétt að gera þetta hér vegna þess, sem rætt hefur verið um þetta í sambandi við afgreiðslu fjárl.

Uppistaðan og fyrirvaf í rökum beggja þessara hv. þm. er, að verkalýðurinn hafi sýnt einhverja óskaplega þolinmæði í sambandi við framkvæmd gengisbreytingarl. og hafi gert það einungis í þeim tilgangi að sýna fram á, að gengislækkunin hljóti að leiða til vaxandi dýrtíðar, enda þótt kaup ekki hækki.

Ég vil í sambandi við þetta benda þeim báðum á, að einmitt þeir mennirnir, sem minnstum mótmælum þurftu að hreyfa, hafa fyrstir orðið til að brjóta þetta boðorð og leitt yfir þjóðina 6 mánaða verkfall, sem hefur valdið tapi svo hundruðum millj. kr. skiptir í erlendum gjaldeyri. Einmitt þeir, sem minnst liðu fyrir breytinguna, urðu fyrstir til að skapa það ástand, sem nú ríkir, og orðið til þess, að ekki var hægt að nota þessa 6 mán. til gjaldeyrisöflunar, um leið og þeir hefðu gefið þeim 4–5 þús. kr. tekjur á mánuði.

Það má vera, að hv. þm. telji þetta engin áhrif hafa á framkvæmd gengisbreytingarl. En ef komizt hefði verið hjá þessu verkfalli, hefði það hlotið að leiða til bætts ástands, sumpart með bættum vöruskiptajöfnuði, sumpart með því að skapa atvinnu, auk þess sem ríkissjóður fer á mis við mikinn erlendan gjaldeyri, sem svo mjög er dýrmætur nú. Þessum rökum er ekki hægt að mótmæla, svo að það er ekki alveg rétt, að verkalýðurinn allur hafi sýnt þolimnæði við framkvæmd gengisbreytingarl., heldur orðið til þess að skapa það ástand, sem ekki mátti skapa, til þess að sanna, að gengisbreytingarl. gætu haldið dýrtíðinni niðri.

Í öðru lagi er þess að geta, að enginn gerði ráð fyrir því, þegar l. voru sett, að annað eins árferði gengi yfir landið og raun hefur orðið á, þar sem síldin brást algerlega í 6. sinn í röð s.l. sumar. Ástandið í landinu hefði orðið allt annað, bæði hvað snertir vöruskiptajöfnuðinn við útlönd og eins hvað snertir atvinnu í landinu sjálfu, ef ekki hefðu komið til þessi tvö atriði, annars vegar það, að síldin brást, og hins vegar það, að togaraflotinn var bundinn í höfn í 6 mánuði. Þetta hlaut að leiða til þess, að ekki var hægt að ná sama árangri af gengisbreytingunni og ætlað var í fyrstu og orðið hefði, ef þetta hefði ekki komið til. Annað þetta atriði var ekki hægt að ráða við, en hinu réðu þeir menn, sem frá upphafi vildu, að gengislækkunin misheppnaðist. En hins vegar má spyrja þá hv. 6. landsk. og hv. 4. þm. Reykv., hvað hefði gerzt hér, ef gengislækkunin hefði aldrei verið gerð. Við hefðum orðið að halda áfram að greiða a.m.k. 45 millj. kr. í uppbætur til útvegsins, kannske tvöfalda þá upphæð. Þetta hefði orðið að taka inn á fjárl., því ekki þarf hv. 6. landsk. að telja mér né öðrum trú um, að það hefði ekki kostað ríkissjóð talsvert fé, ef genginu hefði ekki verið breytt og farið hefði verið eftir kröfum útgerðarmanna, eins og gert var í fyrra. Það hefur sýnt sig, að þessi stefna hefur ekki orðið til þess að stöðva dýrtíðina, og Alþýðuflokkurinn hafði engin ráð til þess önnur en halda áfram eins og gert hafði verið, þangað til gengisbreytingin var gerð. Ofan á öll útgjöldin hefði orðið að taka inn á fjárl. tugmillj. króna til þess að greiða niður vísitöluna og uppbætur til útvegsins, til þess að hægt væri að halda dýrtíðinni niðri, en það var komið svo, að þetta var ekki hægt lengur. Hv. þm. virðist alveg gleyma þessu og heldur því fram, að með gengislækkuninni væri farið inn á því verri braut, en þessi braut hefði reynzt önnur og betri. Ef þessi tvö áföll, sem ég hef rætt um, hefðu ekki orðið, og öðru þeirra á Alþfl. stóran þátt í, svo stóran, að hann hefur verið stórkostlega ásakaður, jafnvel af sínum eigin mönnum, fyrir að halda þessu svo mjög til streitu, og þær ásakanir eru með svo miklum rökum, að formaður Sjómannafélagsins liggur á sjúkrahúsi, veikur af samvizkubiti fyrir þetta. Já, það er ekki ábyrgðarlaust að halda aðalatvinnutækjum þjóðarinnar bundnum í höfnum í 6 mánuði samfleytt, og það er ekki furða, þó að það sé dálítið þungt í mönnum, sem tapað hafa 4–5 þús. kr. á mánuði á þessu verkfalli. Svo talar Alþfl. um, að láta verði undan svokölluðum lágmarkskröfum verkalýðsins; — en hvað skeður, ef haldið er inn á þessa braut? Fyrst þyrfti að láta undan lágmarkskröfum verkalýðsins, síðan undan lágmarkskröfum starfsmanna ríkis og bæja. Dýrtíðarskrúfan er komin á stað, hver hækkun á laun kallar á nýja hækkun, og þá eru það aðrir, sem verða að segja stopp. Hvað skeður þá, þegar verkamenn hafa enga vinnu, þegar búið er að stöðva atvinnuvegina? Sannleikurinn er sá, að hvað sem liður kröfum þessara manna, þá verða atvinnuvegirnir að geta staðið undir þeim, til þess að hægt sé að verða við þeim. Ef þeir geta það ekki og ekkert fé er til annars staðar frá, þá stöðvast þeir af sjálfu sér, stöðvast eins og vél, sem rafmagnsstraumurinn er tekinn af.

Það eru ekki til nema tvær leiðir í þessu máli. Önnur er sú, að koma í veg fyrir hækkanir á kaupi, eins og gert hefur verið, hin að láta undan þeim kröfum, en fella krónuna að sama skapi, eins og upphaflega var gert ráð fyrir í gengisbreytingarl. Þar var sett inn, að Landsbankinn gæti fellt krónuna, ef brýn ástæða væri til. Launin verða þá að vísu hærri, en krónurnar smærri.

Út af þessu vil ég benda hv. 6. landsk. á, að það er stærsta glappaskot, sem Alþingi hefur nokkru sinni gert, þegar samþ. var að hækka laun starfsmanna ríkis og bæja, ekki vegna ríkissjóðs, heldur vegna þeirra sjálfra, því að þetta er þeim engin launabót.

Í sambandi við fyrirspurn hv. 6. landsk. til ráðh. um það, hvort hann héldi, að starfsmenn ríkis og bæja mundu una því, þegar vísitalan væri bundin við 423 stig, að vinna fyrir óbreytt kaup, þá vil ég segja, að ég get vel hugsað mér það. Starfsmenn ríkis og bæja hafa allt aðra aðstöðu en verkamenn. Þeir hafa örugga atvinnu allt árið, almennt styttri vinnutíma en verkamenn og geta því oft unnið annað með sínum föstu störfum, og þeir eru ef svo má segja, tryggðir frá vöggunni til grafarinnar, og hefur það sýnt sig bezt nú, þegar Árni Sigurðsson fríkirkjuprestur er fallinn frá, þá þarf ríkissjóður að hlaupa undir bagga með ekkju hans, og það enda þótt hinn látni væri ekki í þjónustu ríkisins. Þessir menn hafa allt aðra aðstöðu en verkamenn, ef þeir eru sjúkir, fá þeir sjúkratryggingu, og þegar ellin sækir þá heim, halda þeir fullum eftirlaunum, en verkamenn verða að sætta sig við lítilfjörleg ellilaun eftir 67 ára aldur. Af öllum þessum ástæðum er eðlilegt, að þeir sætti sig við lægri laun en verkamenn. Einnig gæti svo farið, að enda þótt verkamönnum væri frjálst að semja um hærri laun, þá opnuðust augu almennings yfirleitt á því, að honum er enginn gróði að því að pressa launin upp með vísitölunni. Í sambandi við þetta má minna á, að það er einhver mesta bölvun, sem yfir þetta land hefur dunið, að launin og vísitalan skyldu nokkru sinni vera bundin saman. Svo lengi sem það er gert fá verkamenn hærri laun með hærri vísitölu, og þeim er þá alveg sama, þótt dýrtíðin aukist, en um leið og kaupgjald og vísitala væru slitin í sundur skapast grundvöllur fyrir því, að almenningur reyni að þoka niður dýrtíðinni. Þetta frv. er tilraun til þess að fara inn á þessa braut.

Hingað til hafa verkalýðsfélögin alltaf staðið saman um það að hækka launin og styrkt hvert annað, — en á hvern hátt? Þau hafa alltaf gætt þess að semja aldrei öll á sama tíma um sama kaup, heldur hvert í sínu lagi, til þess að alltaf væri aðstaða til þess að krefjast launahækkunar í krafti þess, að aðeins væri um samræmingu að ræða. Þetta kom skýrt fram hjá embættismönnum ríkisins í fyrra, þegar sótt var mjög fast af starfsmönnum landssímans að fá kauphækkun, og lá við sjálft, að verkfall yrði, en þeim gleymdist, að þeir voru búnir að fá kauphækkun skömmu áður en aðrir embættismenn ríkisins fengu hana. Allt þetta svikakerfi er orðið viðbjóðslegt, og ber að slíta það í burtu.

Einnig má minna á, að enda þótt full vísitala yrði greidd, þá yrðu menn ekki ánægðir fyrir það. Full vísitala hefur verið greidd síðan fyrst var byrjað á því að reikna hana út, og samt hafa launin verið hækkuð um ca. 80% á sama tíma. Þeir verða aldrei ánægðir fyrr en þeir eru búnir að skilja, að þetta gengur of langt, að atvinnuvegirnir þola þetta ekki, og það er alveg sama, þó hv. þm. hóti ríkisstj. ófriði af hendi alþýðusamtakanna, þau hafa alltaf verið með ófrið, enda þótt vísitalan hafi fengizt hækkuð í samræmi við verðlag í landinu.

Hv. 6. landsk. spurði, eftir hvaða vísitölu laun yrðu greidd öðrum en starfsmönnum ríkisins, ef þessi till. á þskj. 399 yrði samþ. Mér sýnist það rétt, sem hæstv. ráðh. hefur sagt um þetta, að þegar búið er að samþ. þetta frv., þá sé það hreint samkomulagsatriði milli launþega og launagreiðenda í landinu, hvaða vísitala sé greidd á þau laun, sem samið er um, en það finnst mér alveg sjáanlegt, að ekki sé hægt að krefjast hærri vísitölu en 115. Því að breyting á launakjörum í landinu getur ekki orðið skv. þessum lögum, það væri breyting á lögunum, ef ætti að greiða eitthvað ofan á 115, svo að mér skilst, að ef ætti að fá hærri hundraðshluta uppbót á laun verkamanna í landinu, þá mundi þurfa nýja samninga.