19.12.1950
Neðri deild: 45. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í B-deild Alþingistíðinda. (1093)

33. mál, gengisskráning o.fl.

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Mér er svo sem ekkert keppikefli að hefja umr. um þetta mál, en það stóð umr. um það í Ed. í nótt, sérstaklega um tvær till., sem ég flutti við 1. gr.

Aðalbreytingin, sem í þeim felst, er það, að í staðinn fyrir, að frá 1. ágúst 1951 skuli laun ekki taka breytingum, skuli koma 1. febr. 1951. Hér er tíminn þannig færður aftur, en um aðrar breytingar er ekki að ræða. Hér er því verkalýðsfélögunum gefin frjáls höndin um að ráða verði vinnu sinnar, en það er það mark, sem þau hafa keppt að, að engar hömlur væru lagðar á rétt þeirra í þessu efni, og nú eru þessar hömlur numdar úr lögum.

Ég geri ráð fyrir, að þeir stjórnarandstæðingar muni ræða þessi mál töluvert, eins og í Ed., en ég þekki þeirra rök og ég sé ekki ástæðu til að svara þeim að svo stöddu. Ég vil taka það fram út af því, sem stendur í brtt. við 1. gr., að það kemur til af því, að þegar ríkisstj. sneri sér til hagstofunnar um upplýsingar, þá hafði hún reiknað kaupgjaldsvísitöluna 122 stig, og er sú tala sett inn í fjárlfrv. En þegar kauplagsn. gekk frá vísitölunni, reyndist hún 123 stig, eða 1 stigi hærri en hagstofan hafði reiknað út, og þess vegna er þessi brtt. fram komin.