19.12.1950
Neðri deild: 45. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í B-deild Alþingistíðinda. (1096)

33. mál, gengisskráning o.fl.

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að ræða þau atriði, sem hv. 8. landsk. þm. (StJSt) ræddi í sambandi við þetta frv., en vil minnast nokkuð á 2. gr. frv. út af væntanlegu útflutningsgjaldi á síld og síldarafurðum.

Í gengislækkunarfrv. var gert ráð fyrir því í 14. gr., að framleiðslugjald skuli lagt á allar síldarafurðir, aðrar en þær, sem fluttar eru út fullverkaðar, og skal það nema 8% af útflutningsverðmæti þeirra, en ef afli er minni en 4000 mál pr. skipshöfn, er ríkisstj. heimilt að fella það niður. Enn fremur er gert ráð fyrir því, að þessu gjaldi skuli varið til að setja á stofn útlánasjóð, sem rekinn sé aðallega í þágu síldarútvegsins.

Framkvæmd þessa máls varð á s.l. sumri sú, að þegar reiknað var út bræðslusíldarverð og saltsíldarverð, var þetta útflutningsgjald dregið frá því verði, sem sjómenn og útgerðarmenn fengu, þannig að á áætlun síldarverksmiðjanna var sérstakur liður, sem nam rúmum 40 krónum á hvert síldarmál, áætlað útflutningsgjald. Í áætlun síldarútvegsnefndar var gert ráð fyrir, að útflutningsgjaldið yrði 20 kr., og þegar gert var upp við síldarútvegsnefnd, var þetta gjald dregið frá. Síðar var ákveðið, að síldarverksmiðjurnar skyldu greiða helming gjaldsins, en hitt skyldi koma frá síldarútvegsmönnum. Ef þetta gjald hefði ekki verið greitt í sumar, hefðu síldarútvegsmenn fengið 10 kr. meira fyrir síldarmálið og síldarsaltendur 20 kr. meira fyrir tunnuna. — Þegar það er athugað, að s.l. sumar var 6. sumarið í röð, sem hallarekstur var á síldveiðunum, þá sýnist það furðu lítil sanngirni að vilja viðhalda þessu gjaldi. Og þetta gjald verður að greiða, áður en nokkur veit, hvort útgerðin ber sig eða ekki. Ég get ekki skilið þetta háttalag, að leggja gjald á hallærisrekstur útgerðarinnar. Og það er ætlun hæstv. ríkisstj. að viðhalda þessu gjaldi með lítils háttar breytingu. Ríkisstj. hlýtur þó að vera ljóst, að gjaldið er tekið af hallærisrekstri útgerðarinnar, áður en vissa er fengin fyrir því, hvort sjámennirnir verði matvinnungar eða ekki. Nú á að halda áfram með þetta gjald, eins og segir í frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Framleiðslugjald skal lagt á allar síldarafurðir, aðrar en þær, sem fluttar eru út fullverkaðar í smápökkum til manneldis, og skal nema 8% af útflutningsverðmæti. Ef sumarafli er minni en 6000 mál að meðaltali á skip, skal gjaldið allt endurgoldið útgerðarmönnum um leið og lokið er veiðitíma. Ef sumarafli er meiri en 6000 mál að meðaltali á skip, skal gjaldið innheimt og renna allt til síldardeildar hlutatryggingasjóðs bátaútvegsins.“

Á þennan hátt er verið að viðhalda þessu ósvífna gjaldi, sem mun vera einsdæmi í heiminum, — að leggja gjald á atvinnuveg, sem rekinn er með halla. Það er sem ég sæi upplitið á sumum, ef bændum væri gert að greiða gjald, ef þeir öfluðu meira en meðalheyfeng, — og þeir ættu að byrja að greiða þetta gjald strax og fyrstu stráin kæmust í hlöðu. Ætli það væri ekki eins og að nefna snöru í hengds manns húsi að fara fram á þetta? Það hefur heyrzt eitthvað í sumum í sambandi við umr. um aðstoðina á óþurrkasvæðinu. — Hér vil ég geta þess, að það er til önnur veiði síldar en sumarsíldveiðin. Á þá að leggja þetta 8% gjald á Faxaflóasíldina, sem veidd er í reknet? Er nokkur heimild í þessari lagagrein til að endurgreiða gjaldið? Í þessu sambandi má benda á það, að 8% af útflutningsverðmæti er meira en 8% af fersksíldarafla. Það mun láta nærri, að gjaldið sé 15–16% af fersksíldaraflanum. Það er þá gert ráð fyrir, að þessir, sem ekki hafa verið matvinnungar s.l. 6 sumur, eigi að greiða 16% gjald af afla sínum. Ég sakna þess, að hæstv. atvmrh. skuli ekki vera viðstaddur, — hann hefði sannarlega þurft að fá jólahugvekju hér. — Og hið sama gildir um síldina, sem fer til síldarverksmiðjanna. Þar er gjaldið einnig dregið af þeim mönnum, sem verið hafa á þessum bágbornu síldarvertíðum s.l. 6 ár samfleytt. Ég veit satt að segja ekkert dæmi til slíkrar lagasetningar sem þessarar. Og til að mýkja þetta, þá er því lofað, að ef síldaraflinn nemur meiru en 6000 málum á skip, þá skuli gjaldið renna til hlutatryggingasjóðs bátaútvegsins. Ég vil leyfa mér að segja, að það er harla ólíklegt, að sumarafli síldveiðiskipa verði meira en 6000 mál, og er þá verið að gera leik að því að gera sjómönnum erfiðara lifið, án þess að það komi síldarútveginum að nokkru gagni. — Ég hef áður flutt till. um það, að 4. mgr. 14. gr. falli niður, og get ég því ekki flutt hér brtt., er gengur í sömu átt, og ef þessi brtt., sem hér liggur fyrir, verður ekki samþ., þá standa þau atriði í lögunum, sem eru enn þá ranglátari og vitlausari en ákvæðin í brtt. Af tvennu illu er þó líklega betra að samþykkja þessa brtt., sem hér liggur fyrir, en innheimta gjöldin af sjómönnum áður en þeir eru orðnir matvinnungar, eins og verið hefur. Þar sem ég get ekki flutt brtt. um að fella þetta niður, þá vildi ég mega vænta þess, að þeir, sem hér eru, áttuðu sig á þessu fyrir næsta haust. — Ég vænti þess, að þetta mál verði betur athugað, ef stjórnarflokkunum er það ljóst, að það er verið að innheimta þetta gjald af fólki, sem ekki er matvinnungar.

Skal ég þá ekki hafa mál mitt lengra. Ég er algerlega á móti ákvæðum þessarar greinar, en af formlegum ástæðum hefur ekki verið hægt fyrir mig að leggja fram þessa brtt., eins og ég hef lýst. — Þetta er ekki 8% gjald, heldur 16% gjald af verðinu til sjómanna.