19.12.1950
Neðri deild: 45. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í B-deild Alþingistíðinda. (1098)

33. mál, gengisskráning o.fl.

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Ég geri ekki ráð fyrir, að það hafi mikið að þýða að færa hér fram rök eða aðvaranir, því að það er búið að ákveða afdrif málsins fyrir utan þingsalina. En eitt atriði vildi ég, að væri athugað. Fyrst þegar brtt. var lögð fram, var vísitalan ákveðin 122, en eftir 4–5 daga er henni breytt í 123. Þetta er forsmekkurinn af því, sem hér hefur komið fyrir. Það væri betra að miða allt við meðalvísitölu ársins, og ef að líkum lætur, verður meðalvísitala seinni helming ársins miklu hærri en hinn fyrri. En svo segir hæstv. viðskmrh., að verkamenn geti hækkað grunnkaup sitt. Með þessu virðist þá vera sagt: Það er búið að ákveða kaup opinberra starfsmanna við vísitölu 123, og verkalýðurinn má krefjast kauphækkana, ef hann þorir. Allt undantekningarlaust í gengislækkunarlögunum hefur verið svikið. Þau áttu m.a. að halda á rétti launafólks og kaup vera greitt skv. vísitölu, en vandræði hafa verið fyrir ríkisstj. að standa við þetta. Lítum til baka. — 1949, þegar kaup verkamanna var hækkað, var svo komið, að ríkisstj. varð að láta undan síga fyrir opinberum starfsmönnum. Þeir ætluðu annars út í ólöglegt verkfall. — En það, sem kom mér til að standa upp, eru mótmæli, sem mér hafa borizt frá verkamannafélaginu Dagsbrún og ég ætla nú að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn Verkamannafélagsins Dagsbrúnar mótmælir harðlega þeirri tillögu viðskiptamálaráðherra til breytingar á lögum um gengisskráningu o.fl., er miðar að því að fella niður breytingar á launum samkv. gengisskráningarlögunum vegna aukinnar dýrtíðar frá 1. febrúar 1951.

Um leið og stjórnin mótmælir breytingartillögu viðskiptamálaráðherra, skorar hún á Alþingi að samþykkja þá breytingu á gengisskráningarlögunum, að uppbætur á laun verði greiddar mánaðarlega samkv. vísitölu framfærslukostnaðar, en það er einróma krafa allrar verkalýðshreyfingarinnar, sem nýlega hefur verið staðfest af þingi Alþýðusambandsins.

Stjórnin lítur svo á, að með því að festa vísitöluna nú sé stefnt að ófriði í landinu, þar sem launþegar munu ekki geta sætt sig við óbreytt kaupgjald jafnhliða því, sem allt verðlag hækkar gegndarlaust, en festing vísitölunnar losar stjórnvöldin við það aðhald til að halda verðlaginu í skefjum, sem felst í hækkandi kaupgreiðslum vegna aukinnar dýrtíðar.

Fyrir því skorar stjórnin á Alþingi að fella breytingartillögu viðskiptamálaráðherra, en samþykkja í þess stað, að laun breytist mánaðarlega samkvæmt aukningu dýrtíðarinnar.

Virðingarfyllst

f.h. Verkamannafélagsins

Dagsbrún. Eðvarð Sigurðsson.“

Ég vildi láta þessi mótmæli koma fram. Í hvert skipti þegar alþýðan hefur farið í kjaradeilur, hefur verið sagt, að atvinnuvegirnir rísi ekki undir hærra kaupi, en hvað hefur svo sýnt sig? Nú þarf enginn að afsaka sig með því, að þeir hafi ekki verið aðvaraðir, og þeir gera þetta á sína ábyrgð. Þeir bera ábyrgð á því, ef ekki helzt vinnufriður í landinu. Enginn getur haldið því fram, að viðkomandi valdhafar hafi ekki verið aðvaraðir. — Þessi orð vil ég láta falla, áður en þetta frv. fer í gegn, — og býst ég við, eins og ég tók fram, að það þýði ekki mikið að bera fram þessi mótmæli.