02.11.1950
Efri deild: 13. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í B-deild Alþingistíðinda. (1104)

20. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Frsm. (Björn Stefánsson):

Herra forseti. N. tók þetta frv. fyrir á fundi sínum og var sammála um að leggja til, að það yrði samþ. óbreytt. Einn nm. (GÍG) var fjarverandi, en hinir fjórir nm. leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt.

Það er svo, að l., sem hér á að breyta, eru 30 ára gömul og því mjög aðkallandi að breyta sektarákvæðum þeirra. Þegar þau voru samþ., veiddu aðeins togarar með botnvörpu, en á síðari árum hafa bátar 60–100 smálestir að stærð, sem hafa stundað togveiðar, tekið að nota botnvörpu við veiðarnar. Það er því auðsætt, að þessi litlu skip geta á engan hátt greitt eins háar sektir og mörg hundruð tonna skip. Eins og fram kemur í grg., hefur það orðið svo í reyndinni, að flestir þessir smábátar hafa verið náðaðir frá sektunum. Slíkt er óeðlilegt og óviðunandi til lengdar. N. var því þeirrar skoðunar, að þessu bæri að breyta, lækka sektirnar slíkum bátum til handa, en ætlast þá til þess, að horfið verði frá að náða þá. Þannig leggur n, til, að frv. verði samþ. óbreytt.