07.11.1950
Neðri deild: 17. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í B-deild Alþingistíðinda. (1114)

20. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þess var að vænta, að svo skeleggur áhugamaður í þessum málum sem hv. þm. Borgf. væri þess ekki fýsandi, að slík löggjöf yrði sett. Ég veit þó ekki, hvernig hefði farið fyrir bátum frá Akranesi, sem teknir hafa verið í landhelgi, ef ríkt hefði verið gengið eftir fullum sektum hjá þeim. Það er erfitt að viðurkenna ekki sanngjarnan málaflutning skipstjóra bátanna, er þeir koma og segja, að atvinnuvegur þeirra verði algerlega lamaður, ef innheimta fullra sekta eigi sér stað. Og það er óvefengjanlegt, að ef gengið yrði hart eftir fullum sektum frá hinum minni bátum, sem teknir eru á ólöglegum veiðum, þá yrði útgerð þeirra stöðvuð fyrir fullt og allt. Það hafa borizt áskoranir úr heilum landshlutum um að afnema landhelgisbann það, sem hér er um að ræða, fyrir þessa báta, en ég tel, að slíkt komi ekki til greina. En hinu held ég fram, að það er óframkvæmanlegt að innheimta 70–80 þús. kr. sekt hjá bátum innan við 100 rúmlestir að stærð. Það mundi ríða útgerð viðkomandi báta að fullu. Ég játa hins vegar, að þetta er álitamál, en ég vil ekki halda uppteknum hætti að náða þá báta, sem ekki geta borgað sínar sektir. Ég tel, að hv. Alþ. eigi að taka afstöðu til þessa máls og kveða á um refsingu fyrir brot á þessum lagaákvæðum, þó að stjórnskipuleg heimild leyfi, að náðun sé veitt í þessum tilfellum. Það er alveg rétt sjónarmið hjá hv. þm. Borgf., að fleira en verðmæti tækjanna, sem beitt er við lagabrotin, kemur til greina. Það ber einnig að líta á það tjón, sem tækið veldur. En eins má segja, að sami tilgangurinn (hinn sami illi vilji) með lagabrotinu sé hjá mönnum, á hvers konar skipi sem þeir eru, og því eðlilegt að beita sömu refsingum. En ef miða á við tjónið, sem skipið veldur, þá er ekki hægt að bera á móti því, að það er minna hjá litlum skipum, því að aflinn hjá stærri skipunum er mun meiri, og ég get ekki séð, eftir hvaða öðrum mælikvarða á að mæla tjónið. Það eru ekki aðeins viðkomandi aðilar, sem hafa leitað til mín um, að náðun ætti sér stað, þegar svona hefur staðið á, heldur og þingmenn hlutaðeigandi kjördæmis, og ég tel rétt, að kveðið sé á um það, hvort svo eigi að fara fram eða ekki. Ég játa, að það getur verið varhugavert að samþ. reglugerð sem þessa, en reynslan hefur sýnt, að svona háar sektir eru óinnheimtanlegar, og það hefur reynzt fullerfitt að ná inn sektum, þegar búið hefur verið að lækka þær ofan í 5–10 þús. kr. Útgerðarmenn segja, að þeir séu svo illa staddir nú, að ef gengið verði ríkt eftir greiðslum, þá stöðvist útgerð þeirra. Ég hef því oft tekið til greina, að samkomulag yrði um, að sektir greiddust á ákveðnum tíma, þegar annað hefur reynzt ómögulegt. Ég kýs fremur, að lög um þetta efni séu þannig, að hægt sé að framkvæma þau, en að þau séu óframkvæmanleg, og sú er ástæða fyrir því, að ég flyt þetta frv. En ef hv. Alþ. kýs annað, þá tjáir ekki að sakast um það, þótt bátar sleppi við refsingu, er mistök í þessum efnum hafa átt sér stað. Ég get þess þó, að ekkert handahóf hefur ríkt í þessum málum, en ráðuneytið hefur skapað sér ákveðnar reglur, sem það hefur beitt jafnt á alla, og kemur þar engin tilviljun til greina.

Það ber að líta á það að hafa sektirnar svo háar, að þær haldi mönnum frá að fremja þessi lagabrot, en þó ekki svo háar, að þær verði dauður bókstafur. Og það meðalhóf er reynt að þræða með þessu frv.