07.11.1950
Neðri deild: 17. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í B-deild Alþingistíðinda. (1116)

20. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég bjóst nú ekki við því, að mér mundi takast að sannfæra hv. þm. Borgf., því að hann þarf nú meira til þess heldur en slíkan málflutning af minni hálfu. Sem betur fer erum við oftast sammála, hv. þm. Borgf. og ég. En mér virðist erfitt að breyta hans skoðun, ef hún er röng frá upphafi. Nú segi ég ekki, að skoðun hans sé röng í þessu máli, því að þetta er mikið álitamál, hvernig með þetta eigi að fara. — En það, sem gaf mér tilefni til að standa upp, var það, að hv. þm. Borgf. talaði eins og ég hefði gefið í skyn, að bátaflotinn yrði yfirleitt stöðvaður, ef innheimtar væru sektirnar fyrir landhelgisbrot, eins og þær hafa verið ákveðnar, og að meiri hluti skipstjóra væri sekur í þessum efnum. Mér hefur ekki dottið í hug að segja þetta, og hafi ég sagt eitthvað í þá átt eða sem hefði mátt skilja þannig, þá vil ég leiðrétta það. (PO: Stöðvun fyrir fullt og allt). Já, einstakra báta. Og því vil ég halda fram, að ekki mundu menn ginnkeyptir til þess að taka við útgerð allra þeirra báta — þeir eru svo margir —, sem orðið hefur að gefa eftir sektir fyrir landhelgisbrot á undanförnum árum. Þeir eru svo margir, að eins og útgerðin hefur gengið treglega undanfarið, þá hefði auðvitað þurft að selja bátana alla, sem í þetta komust, og koma þeim í verð, ef innheimta hefði átt sektirnar til nokkurrar hlítar, því að þá hefði ríkið tekið sitt og skipin verið boðin upp. — Mér virðist, að menn eigi að reyna að finna þann refsiramma, sem sé framkvæmanlegt að fara eftir, hvort sem það er það, sem lagt er til í þessu frv., eða eitthvað hærri sektir, en þó vægari fyrir báta en fyrir stærri skipin. En ég hef ótrú á því að ætla að hafa lögin þannig, að þau í raun og veru séu óframkvæmanleg. Og þess vegna hefur skapazt venjan, sem farið hefur verið eftir, að lögin hafa þótt óframkvæmanleg. Því að það að ætla sér að pína 70 til 80 þús. kr. sektarupphæðir út úr útgerð báta fyrir afbrot sem þessi, það er að mínu viti ekki framkvæmanlegt. — Ég legg til, að frv. verði vísað til hv. sjútvn.