08.12.1950
Neðri deild: 34. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 514 í B-deild Alþingistíðinda. (1119)

20. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Frsm. minni hl. (Pétur Ottesen):

Ég hef á þskj. 239 gert nokkra grein fyrir afstöðu minni til þessa máls, þeirri afstöðu, að ég gat ekki verið hv. meiri hl. sjútvn. sammála um að mæla með samþykkt þessa frv. En samkv. frv. á að lækka í verulegum mæli sektir fyrir brot gegn 1. um bann gegn botnvörpuveiðum, ef brotin eru framin af skipum, sem eru allt að 115 rúmlestir að stærð. En að öðru leyti, eða ef brotin eru framin af stærri skipum, eiga sektarákvæðin, sem nú gilda, að haldast óbreytt.

Ég lít á þetta mál miklu meir út frá því sjónarmiði, að sektirnar eigi að miða við það tjón, sem hlýzt af brotunum, sem framin hafa verið. Og í þeirri löggjöf, sem gilt hefur nú um 30 ár um þetta atriði, þá hefur þarna ekki verið gerður munur á. Og af þeim kunnugleika, sem ég hef af slíkum landhelgisbrotum — og svo mun yfirleitt vera dómur þeirra manna, sem þar þekkja nokkuð til — þá er vitað, að það er í mörgum tilfellum sízt minna tjón, sem hlýzt af þeim brotum, sem framin eru af skipum af þessari minni stærð heldur en af skipum, sem eru stærri. Og á þetta alveg sérstaklega við þá rányrkju, sem framin er innan landhelginnar, að því er snertir ungviði fisksins. Því að það blandast engum hugur um það, í sambandi við þá fiskifæð, sem við horfumst nú í augu við, að hún er e.t.v. einn af hinum geigvænlegustu hlutum fyrir íslenzku þjóðina, sem byggir afkomu sína að svo verulegum hluta á sjávarútvegi. Og þá er rányrkjan fyrst og fremst það atriði, sem ber að gjalda varhuga við. Það er sjálfsagt hægt að ganga með of mikilli veiði svo nærri nytjafiskistofninum, að þar geti stafað nokkur hætta af. En miðað við aðstæður við strendur landsins stafar enn meiri og geigvænlegri hætta af því gegndarlausa drápi, sem framið er á uppfæðingnum hér við strendur landsins, einmitt innan landhelginnar. Og í því efni stafar engu minni hætta af botnvörpuveiðum og dragnótaveiðum hinna smærri skipa heldur en þeirra, sem stærri eru. Og þess vegna, þegar litið er á málið frá þessu sjónarmiði, þá get ég ekki fallizt á það sjónarmið, sem hér kemur fram, að gera þarna mun á.

Þá má enn fremur benda á það, eins og gert er líka í nái., að við Íslendingar erum ekki einir um slíka veiðiaðferð á smærri skipum eða skipum einmitt af þessari stærð, sem lækkun sektanna á að taka til, því að hér er mikill grúi erlendra manna, sem sækir á miðin og stundar botnvörpuveiðar og dragnótaveiðar einmitt á stærð þeirra skipa, sem hér koma til greina. Og það er í nál. bent á það, að t.d. á einum stað hér — annars er þessi floti dreifður alls staðar meðfram ströndum landsins —, en það kveður svo rammt að þessum veiðum síðari hluta vetrarvertíðar á Vestmannaeyjamiðum, að útlendu bátarnir, sem þar eru að veiðum, skipa sér löngum svo þétt á beztu miðin, að heimamenn í Vestmannaeyjum koma veiðarfærum sínum þar ekki í sjóinn, sem aflavænlegast er. Svona mikill grúi er löngum síðari hluta vetrarvertíðarinnar þarna. Enda er það frá ekki færri en fjórum eða fimm þjóðlöndum, sem skip sækja hingað að ströndum landsins til slíkra veiða. Og þessi veiðiskapur fer árlega í vöxt af hálfu útlendinga. Það er líka alkunna, að þessir útlendingar, sem stunda hér botnvörpuveiðar á þessum skipum, eru oft nærgöngulir við landhelgina. Og ég verð að segja, að það horfir frá mínu sjónarmiði harla einkennilega við að fara að gera sérstakar ívilnanir gagnvart yfirtroðslum af hendi slikra manna, eins og hlyti að verða afleiðingin af samþykkt þessa frv. Þetta er líka verulegt atriði í þessu sambandi, sem verður að taka tillit til nú við afgreiðslu þessa máls.

Það er í þriðja lagi bent á það í nál., að það skjóti nokkuð skökku við, að nú skuli koma hér fram till. um lækkun á þessum sektum, þar sem ekki er lengra liðið um en frá 1948, síðan sektir fyrir brot á fiskveiðalöggjöfinni voru hækkaðar verulega, fimm- til tífaldaðar, og til grundvallar fyrir sektum eru ákveðnar gullkrónur þá, alveg eins og gert er nú um sektir fyrir brot gegn l. um bann gegn botnvörpuveiðum.

Af þessum ástæðum öllum, sem ég hef nú lýst, hefur mótazt afstaða mín til þessa máls, sem er sú, að ég leggst gegn því, að þetta frv. verði samþ.

Nú er gert ráð fyrir því í brtt. hv. meiri hl. sjútvn., sem hv. frsm. láðist að geta um, að stærðartakmark þessara skipa sé fært úr 145 upp í 200 rúmlestir. Og þá náttúrlega bætist þarna eitthvað við af skipum, sem sleppa eiga léttar frá sektum en nú er ákveðið í l., og bætir það sízt úr frá mínu sjónarmiði.