12.12.1950
Neðri deild: 37. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 518 í B-deild Alþingistíðinda. (1126)

20. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Frsm. meiri hl. (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins leiðrétta misskilning í ræðu hv. þm. Borgf., minni hl. sjútvn., þar sem hann sagði, að ég hefði sagt hér í ræðu, þegar þetta frv. var hér áður á dagskrá, að erlend skip, sem væru við botnvörpuveiðar hér við land, mundu ekki gera sig sek um landhelgisbrot. Þetta er ákaflega rangt farið með, því að ég sagði, að fá erlend skip af þeirri stærð, sem gert er ráð fyrir, að þetta frv. eigi að ná til, væru að veiðum hér við land með botnvörpu, þ.e. skip allt að 200 rúmlestir að stærð.

Og ég vil taka undir mál hv. 2. þm. N-M., að það er aðeins til þess að gera þessa löggjöf jákvæðari, að þessarar breyt. er óskað á l., sem sé með því að færa sektarfjárupphæðina niður, þannig að þá verði reynt að framfylgja sektarákvæðum l., svo að þeir bátar, sem sekir kynnu að gerast um brot á landhelgisl., verði þá látnir greiða sektirnar. Og ég held, að þessi breyt. á l. verði til þess, að minna verði um landhelgisbrot af hálfu þessara báta, eftir að þetta frv. er lögfest, er þeir eiga á hættu, að gerð verði gangskör að því, að sektirnar verði innheimtar.