28.11.1950
Efri deild: 27. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 522 í B-deild Alþingistíðinda. (1147)

107. mál, bifreiðalög (viðurlög)

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Eins og nál. á þskj. 219 ber með sér, þá var ég ekki mættur á þeim fundi n., þar sem þetta mál var afgr. Og þó að sá fundur hafi verið haldinn 23. nóv. eða sama dag og málið var . afgr. hér til n., þá hefur nál. um það ekki verið útbýtt fyrr en nú á þessum fundi, og mér því verið ókunnugt um afgreiðslu n. á málinu. — Hins vegar er ég ekki á sama máli og meiri hl. hv. n., sem undirritað hefur nál. og vill samþ. þetta frv. eins og það liggur fyrir.

Ég lít þannig á — og ég tel líklegt, að þannig muni almennt verða litið á, — að með þessu frv. sé verið að létta refsingar fyrir ölvun við akstur bifreiða. En ég álít hins vegar, að það mál, ölvun við akstur bifreiða, sé svo alvarlegt mál, að ekki sé rétt af löggjafanum að gefa mönnum neitt undir fótinn um það, að refsingar fyrir slík brot verði vægari heldur en verið hefur. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það eða útlista það, hver hætta felst í því, ef menn aka bifreiðum undir áhrifum áfengis. Reynslan er ólygnust um þá hluti. Það er öllum kunnugt, að mjög mörg slys hafa hlotizt af því. Og ég álít, eins og ég hef sagt, að löggjafarþingið eigi ekki að gefa á neinn hátt undir fótinn með það, að dregið verði úr refsingum fyrir það, sem hefur slíka hættu í för með Sér, bæði fyrir ökumanninn sjálfan og þá farþega, sem hann kann að vera með í það og það sinn, og ekki aðeins það, heldur líka fyrir alla umferð, þar sem slík tilvik geta valdið árekstrum og slysum.

Ég er af þessum ástæðum andvígur því, að refsingar fyrir slík brot verði á nokkurn hátt léttar. En það tel ég, að felist í þessu frv. Mun ég þess vegna greiða atkv. á móti frv. og mundi hafa tekið afstöðu gegn frv. í n., ef ég hefði setið fundinn, er málið var til meðferðar.