09.01.1951
Neðri deild: 46. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í B-deild Alþingistíðinda. (1158)

107. mál, bifreiðalög (viðurlög)

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég hlustaði ekki á allar umr., en þykist renna grun í, hvað mönnum kemur hér ekki saman um. Ég skil út af fyrir sig þær aths., sem hv. þm. Ísaf. bar hér fram, og vitanlega verður það mjög að fara eftir mati, hvaða refsingu er talið fært að leggja niður og breyta af þeim sökum, sem hér er talið. En ég geri ráð fyrir, að flestir finni að hér er um alveg takmörkuð tilfelli að ræða, a.m.k. er það svo, að það hafa safnazt fyrir á undanförnum árum refsingar þeirra manna, sem hér eiga hlut að máli, sem kemur af því, að talið hefur verið eðlilegt, að aðrar refsingar yrðu teknar út fyrst. Nú vil ég engan veginn stuðla að því, að ýtt sé undir, að menn undir áhrifum áfengis aki bifreið, ég tel það hættulegt og refsivert, og ætlunin er sú, að það sé haldið áfram að refsa fyrir það með tilfinnanlegu móti. En reynslan hefur sýnt, að þessar fangelsisrefsingar hafa yfirleitt ekki náð tilgangi, vegna þess að til undantekninga má telja, öll þau ár sem þær hafa verið í gildi, að þeim hafi verið framfylgt, þó að það hafi verið gert stundum. Ég hef þess vegna talið rétt að horfast í augu við þessa staðreynd og láta heldur beinar sektargreiðslur koma strax til og hafa þann möguleika, eins og verið hefur, að taka tillit til efnahags sakbornings, og ef þeir greiða ekki sektina á tilsettum tíma, þá verður að láta þá sitja hana af sér í fangelsi, eins og venja er til. En ég tek hins vegar undir það með hv. þm. Ísaf., að ég tel brýna nauðsyn á því, að fangarúm verði aukið. til þess að hægt sé að fullnægja dómum nokkurn veginn jafnóðum, og ég geri ráð fyrir því, að ég muni reyna á þessu ári, ef ég sit áfram, að undirbúa það mál, þannig að Alþ. eigi kost á því að taka til þess afstöðu, þegar það kemur saman til reglulegs fundar á ný. Hins vegar hef ég litið þannig á undanfarin ár, þegar skortur hefur verið mikill á byggingarefni til brýnna nauðsynja, svo sem óhjákvæmilegra íbúða og sjúkrahúsa, að þá væri þó réttara að láta viðbótarfangabyggingar bíða, auk þess sem það mál er ekki einfalt til úrlausnar, því að ég efast um, að það sé hagkvæmt, sem sumir telja, að auka beinlínis við Litla-Hraun. Ég lét gera teikningu af viðbót við Litla-Hraun fyrir 2 árum, það gerði þáverandi húsameistari ríkisins. Guðjón Samúelsson, og þegar maður sá þær teikningar og það fyrirkomulag eins og það var gert. þá var ljóst, að sú tilhögun var ekki heppileg lausn á því máli, og ég efast um, að það sé frambúðarlausn að ætla að auka mjög fangarúmið á Litla-Hrauni sjálfu. Það væri sök sér, að það væri gert með sérstakri byggingu, en vitanlega er það mjög óheppilegt að rugla svo saman brotamönnum sem þar er gert, því að brotin eru venjulega mjög óskyld, og þess verður að gæta, að fangelsi verði ekki beinlínis uppeldisskóli fyrir hættulega afbrotamenn, en viðbúið er, að svo verði, ef þeim, sem lítilvæg afbrot fremja, er blandað saman við meiri háttar afbrotamenn. Er þetta mjög erfitt fyrir okkar fámennu þjóð. Þetta fangamál er ekki auðleyst, og ekki er nóg að hrúga upp viðbótarbyggingu á Litla-Hrauni. Ég get skilið, að úr því að hindra verður byggingu smáíbúða, þá verði fangelsisbyggingin að sitja á hakanum. En vitanlega geta menn ekki tekið þá aðstöðu eina til greina, ef afbrotið er slíkt, að fangelsisrefsing eigi ein við. Nú getur fangelsisrefsingu ekki verið fullnægt. Væri því betra að setja um þetta ákvæði, svo að dómarar geti ekki ákveðið refsingu eftir eigin geðþótta, þannig að handahóf komi til greina, heldur viti menn fyrirfram, hvaða refsing liggi við broti þeirra.