09.01.1951
Neðri deild: 46. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 526 í B-deild Alþingistíðinda. (1159)

107. mál, bifreiðalög (viðurlög)

Jón Pálmason:

Herra forseti. Landbn. flutti brtt. á þskj. 282 og fer þar fram á, að lágmarksaldur bifreiðarstjóra verði færður úr 18 árum í 17 ár. Þannig er málinu háttað, að fyrir 2 eða 3 árum var samþ. till. að miða bifreiðarstjórapróf við 17 ára aldur. Álítur bifreiðaeftirlitið, að óhætt sé að miða við þann aldur. Þetta hafði aðeins þau áhrif, að menn fengu próf 17 ára, en lögin eru óbreytt og réttindi til að aka bifreið eru bundin við 18 ár. Kemur þetta sér illa í sveitum, þar sem notkun véla fer stöðugt í vöxt. Meðal annarra sagði skólastjórinn á Hvanneyri, að komið hefðu fram miklar kvartanir um, að þetta valdi miklum óþægindum, því að víða á sveitabæjum sé aðeins einn ungur maður.

Nú mætti segja það helzt á móti þessari brtt., að vera kynni, að af því stafaði minni gætni en ella. En eftir því, sem mér hefur verið tjáð, þá er því ekki til að dreifa, að þeir séu neitt verri bifreiðastjórar á 17 ára aldri en síðar. Væri miklu fremur ástæða til að setja hámarksaldur, t.d. þegar 50 ára menn fara að læra á bifreið, en menn eru hvað öruggastir og liprastir um 18 ára gamlir. — Vera kann, að þetta sé annað í kaupstöðum en sveitum; þar er nægilegur fjöldi, sem ekur bifreiðum, enda er till. flutt vegna sveitanna. Er ósamræmi í því, að menn hafi rétt til að taka próf 17 ára, en aka 18 ára.