09.01.1951
Neðri deild: 46. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 527 í B-deild Alþingistíðinda. (1161)

107. mál, bifreiðalög (viðurlög)

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Það virðist aðeins geta orðið skammgóður vermir fyrir löggjafarvaldið að breyta refsingu í sekt vegna skorts á fangahúsum, því að næsta stig Yrði, að menn mundu neita að greiða sektir, og yrði þá ekkert fangahús til handa þeim. sem neita að greiða sektirnar. Gætu af þessu stafað almenn samtök um að neita að greiða sektir, og þar sem ekki væru til fangahús, yrði næsta stig, að ekki væri hægt að beita sakborninga nokkurri refsingu. Þetta veit ég, að okkar ágæti og glöggi dómsmrh. sér.

Nú er ég ekki að halda því fram, að nauðsynlegt sé að beita hörðum refsingum, og er ég ekki talsmaður þungra refsinga. — Það er rétt hjá hæstv. dómsmrh., að vafasamt er, hvort viðbygging á Litla-Hrauni mundi bæta úr þessari þörf. Og meðan skortur er á byggingarefni til sjúkrahúsa o.fl., þá er ekki óeðlilegt, að fangelsisbygging sé látin sitja á hakanum. En við megum ekki láta þetta ganga svo langt, að þeir, sem dæmdir eru til fangelsisvistar, verði látnir sæta óviðunandi aðbúð. — Bætt hefur verið fangelsið á Skólavörðustíg, en það nægir ekki. Líklega hafa ekki verið meira en 70 þús. manns hér á landi, þegar það var byggt. Það skortir á, að vistin sé eins og nauðsyn krefur. Sama má segja um Litla-Hraun, þótt þar sé haldið uppi svo góðri reglu sem húsrúm leyfir. En það er til skammar, hvernig fangaklefarnir eru hér í lögreglustöðinni. Þetta veit ég, að hæstv. dómsmrh. hefur séð. — Slíkt er tæplega samboðið réttarþjóðfélagi. Væri miklu líkara, að það væri í lögregluríki en hér.

Ég hygg, að tími sé til kominn, að við tökum þessi mál þeim tökum, sem sæmir landi okkar. Því að þeir, sem lenda í því óláni að vera dæmdir, þurfa að fá góða aðbúð, engu síður en þeir, sem verða fyrir því óláni að verða sjúkir. Það þyrfti að fara fram rannsókn á því, hvernig þessum málum er háttað hjá nágrannaþjóðunum. Hygg ég, að Danir séu þar fremstir.

Ég tel vafasamt að breyta refsingu í sekt vegna skorts á fangahúsum, því að af því mundi leiða, að menn gerðu með sér samtök um að greiða ekki sektirnar, og þá, eins og ég hef áður sagt, yrði næsta skrefið, að ekki væri hægt að koma við neinum refsingum vegna húsnæðisleysis.

Viðvíkjandi því að færa ökuréttindi niður í 17 ár, þá er nefndin því mótfallin. Hún telur, að það yrði til þess að minnka það öryggi, sem menn hafa á vegum úti. Þar með er ekki sagt, að 17 ára menn séu ekki fullfærir um að stjórna bifreið, og jafnvel eru þeir betri en þeir eldri. En gjarnan vill unglinga skorta varúð eldri manna.