09.01.1951
Neðri deild: 46. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í B-deild Alþingistíðinda. (1166)

107. mál, bifreiðalög (viðurlög)

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Ég get huggað hv. þm. V-Húnv. með því, að nokkur athugun á þessu hefur farið fram í höfuðstaðnum, — að vísu frekar um stað til þess að koma í veg fyrir hina margumtöluðu og illræmdu kjallaravist á lögreglustöðinni. En það hefur ekki fundizt hagkvæmur staður. Enda þarf fangelsi að vera nokkuð afskekkt, eða a.m.k. með þeim hætti, að hægt sé að halda þeim mönnum einangruðum, sem þar eru. Og þess vegna var það, sem ég nefndi., að við hefðum látið athuga staði úti um land. (SkG: Ekki er nú afskekkt á Skólavörðustígnum!) Satt er það. Ég er kunnugur í næsta nágrenni þar frá barnæsku og veit því, að þetta er ekki hagkvæmur staður, eins og löngum hefur verið að búið, að fangahússgarðurinn var allt að því leikvöllur barnanna í nágrenninu. Þetta er einn helzti gallinn á fangelsinu á Skólavörðustígnum, að það er komið inn í þétta byggð og ekki hægt að einangra fangana eins og skyldi. Hefur þetta komið oft og einatt að beinni sök, t.d. varðandi gæzlufanga, þannig að þeir hafa komizt í ólöglegt samband við sína sakarfélaga úti og orðið til þess að gera örðugra að koma upp afbrotinu.

Varðandi þá fyrirspurn, hvort ekki mætti alveg eins náða fyrir önnur afbrot en þau, sem hér um ræðir, er alveg rétt, að það mundi að meginstefnunni til vera heimilt og hefur e.t.v. verið gert áður fyrr, ég skal ekki um það segja. En ég hef aldrei gert það, þegar ég hef gegnt störfum, og mér vitanlega hefur það aldrei komið til greina á mínum starfstíma. Ástæðan til, að þessi háttur er valinn með þessi tilteknu afbrot, er sú, sem hv. þm. veit, að óþolandi er að láta í l. standa ákvæði, sem ekki er hægt að framfylgja. Reglan var orðin sú að láta einfaldlega dragast að menn tækju út þær fangelsisrefsingar, sem þeir eru dæmdir til, og þess vegna sluppu þeir algerlega við refsingu, þar sem aftur á móti maður, sem hafði framið minna afbrot og fengið fjársektardóm, varð að greiða sína sekt. Ég taldi, að þessi háttur væri með öllu óviðunandi og betra að breyta refsingunni í fjársekt og innheimta hana. Þetta er það, sem hér hefur skeð, og má hver ámæla, sem vill. Ég tel, að eftir því, sem um var að ræða, hafi þetta verið heppilegri framkvæmd heldur en sú, sem áður var.

En tilefni þess að ég stóð upp var það, sem hv. þm. sagði í þá átt, að þeir, sem væru ölvaðir við akstur og hefðu valdið fjártjóni og e.t.v. manntjóni, hefðu verið látnir sleppa við sekt. Þetta er alger misskilningur. Þetta hefur aldrei verið gert þann tíma, sem ég hef verið dómsmrh. Allir þeir, sem hafa valdið einhverju tjóni við akstur og verið ölvaðir, hafa orðið að taka út einhverja refsingu eins og lög standa til. Það getur verið, að einhver hluti refsingar hafi verið gefinn eftir með skilorði, eins og oft á sér stað með refsingar. Það, sem er einungis hér um að ræða, er það, að ef menn aka bil og hafa smakkað áfengi, þannig að talið er, að þeir séu undir áfengisáhrifum og brotið er sannað, án þess að þeir valdi nokkrum skaða, slíkir menn sleppa þá við sekt. Í flestum löndum er það þannig, að fyrir þetta eru menn ekki refsiverðir, þ.e. þó að þeir smakki áfengi og fari beint frá áfengisneyzlunni til að aka bíl, ef þeir aka forsvaranlega. En hér á landi er þetta talið refsivert. En ég flyt frv. vegna þess, að ég tel það eftir atvikum nóga refsingu, að menn séu dæmdir til ökuleyfissviptingar. Það mun nú vera framkvæmt minnst til sex mánaða, og sektargreiðsla er eitt til tíu þúsund krónur. Ef þeir valda einhverju tjóni, eru þeir vitanlega dæmdir í meiri refsingu en hér um ræðir. Og eins og ég sagði áðan, hefur verið tekinn sá háttur upp að náða að þessu marki fyrir þessi brot, en ekki önnur, vegna þess að þessi brot eru svo ákaflega tíð. Og ég efast um sannast að segja, að til væri nokkur sá dómsmrh. — ég vil ekki hafa mig undantekinn —, sem hefði kjark í sér til þess að beita undantekningarlaust fangelsisrefsingu fyrir þessi brot. Ég hygg, að segja megi um alla þá dómsmrh., sem hafa verið hér, að þeir hafi valið þarna á milli og sleppt sumum. Ég tel, að þeir líti þannig á, að brotið sé ekki alvarlegra en svo, að ef það eru þeirra kunningjar, þá sé hægt að náða þá. Ég tel slíka réttargæzlu ákaflega óheppilega. Ég vil ekki gera mig betri en aðra. Getur verið, að ég hefði fallið í sömu freistingu, ef á mig hefði reynt. En ég hef tekið upp almenna reglu í stað handahófsins, sem leiddi til þess, að lögunum var alls ekki framfylgt.