13.11.1950
Efri deild: 18. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í B-deild Alþingistíðinda. (1186)

65. mál, ábúðarlög

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Eins og ég gat um við 1. umr. málsins, þá samþ. sýslunefnd Norður-Ísafjarðarsýslu ýmsar till. viðvíkjandi ábúð jarða, og sérstaklega voru þær stílaðar á það að reyna að koma í veg fyrir, að jarðir færu í eyði, og sendi sýslunefndin þessar till. til hæstv. ríkisstj. s.l. vetur eða snemma á síðasta vori. Mér sem búnaðarmálastjóra voru sendar þessar till. seint í júní og ég beðinn að athuga, hvort í sambandi við þær væri ástæða til að gera breyt. á ábúðarl. og reyndar fleiri lögum. Því að þessar till. frá sýslunefndinni hnigu líka að því að fyrirbyggja, að tekið væri tillit til matsverðs eyðijarða, þegar gjöldum væri jafnað niður á hreppa sýslnanna, svo sem sýslusjóðsgjöldum, sýsluvegagjöldum, tryggingagjöldum o.fl. Í tilefni af þessu bréfi voru hreppstjórum á öllu landinu sendar fyrirspurnir út af þessum ábendingum og þeir beðnir allir að senda upplýsingar um allar eyðijarðir og ekki eyðijarðir í hverjum hreppi og af hvaða ástæðum jarðir, sem í eyði væru, væru það, og hvort þeim fyndist ástæða til að breyta ábúðarl. vegna þessara eða annarra hluta, og hverjar breyt. þeir teldu, að gera þyrfti á þeim, og enn fremur, hvort þeir vildu koma með ákveðnar till. um það, hverjar breyt. þyrfti að gera í sambandi við þessar till., sem sýslunefnd Norður-Ísafjarðarsýslu samþykkti. Mjög mikill meiri hluti hreppstjóranna, — óvenjulegur meiri hluti í slíkum tilfellum —, líklega upp undir 90% af þeim hafa svarað þessu bréfi og gefið upplýsingar um, hve margar eyðijarðir séu í þeirra hreppum. Enn fremur hafa þeir sent álit sitt um, hvernig þeir teldu, að þyrfti að breyta ábúðarl. og öðrum lögum í sambandi við þetta. Það eru ákaflega margvíslegar breyt., sem þeir leggja til, og m.a. þær, sem hv. þm. Barð. minntist á. Þegar ég hreyfði síðar þessu máli hér, sagði hæstv. ráðh., að það vekti fyrir honum að samræma þessi lög. Og stjórn Búnaðarfél. Ísl., sem ég hef talað um málið við, áleit réttara, að bændur í landinu og þeir sérstöku bændafulltrúar, sem á búnaðarþingi sætu, legðu fram umsögn sína um það, hverju þeir teldu réttast að breyta í lögunum, áður en við í búnaðarfélagsstjórninni gerðum okkar till. í þessu efni. Og ákváðum við að senda búnaðarþingi, sem væntanlega kemur saman í febrúar í vetur, þessar till. til þess að vinna úr þeim og til þess að gera uppkast að breyt. á ábúðarl. Á þetta féllumst við í landbn. þessari hv. d. Og við féllumst á, að eins og sakir stæðu nú, þá væri ekki ástæða til annars en að samþ. þetta frv. eins og það liggur fyrir og biða eftir því, hvað búnaðarþing legði til um frekari breyt. á ábúðarl., sem væntanlega er hægt að vita um í vetur, og þá kannske taka málið alveg aftur upp á ný. Þess vegna held ég, að öll hv. landbn. sé sammála um að taka ekki upp frekari till. um breyt. á þessum l. nú. Ég veit, að sumir nefndarmenn í hv. landbn. Nd., t.d. hv. 2. þm. Skagf., hann var mjög að hugsa um að taka upp tili. um miklu meiri breyt. á ábúðarl. En ég held, að hann sé horfinn inn á sömu stefnu í þessu efni og landbn. hér. Og ég held, að ég megi segja, að landbn. þessarar hv. d. óski á þessu stigi ekki að gera frekari breyt. á þessum l. nú heldur en þessa samræmingu, sem með frv. þessu á að gera, en bíða og sjá, hvað búnaðarþing finnur ástæðu til að leggja til, að tekið sé upp af till. hreppstjóranna, sem að mínum dómi eru sumar réttmætar, aðrar vafasamar, en sumar mjög fáránlegar. T.d. get ég sagt hv. 4. þm. Reykv., sem hér er hjá mér, það, að þrír af hreppstjórunum eru þeirrar skoðunar, að aðalástæðan fyrir því, að jarðir leggist í eyði, séu ákvæðin í 112. gr. almannatryggingal., um tryggingarskyldu verkafólks. Svo að sumar till. eru á litlum rökum byggðar. En landbn. telur miklu réttara að láta búnaðarþing fara í gegnum þessar till., af því að á búnaðarþingi væru menn, sem ekki væru málum þessum síður kunnugir heldur en hreppstjórarnir, sem gerðu þessar till. — Ég held því, að það hafi ekki þýðingu að vísa frv. þessu til n. nú til frekari athugunar.