22.01.1951
Neðri deild: 53. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í B-deild Alþingistíðinda. (1197)

65. mál, ábúðarlög

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Þetta frv. til ábúðarl., sem hér liggur fyrir, er í raun og veru engin breyt. frá þeim lagaákvæðum, sem nú eru í gildi, heldur samfærsla á l. eins og þau voru samþ. á sínum tíma og samþ. breyt., sem á þeim hafa verið gerðar síðan. — Það varð samkomulag í landbn. um að mæla með því, að þessar formbreyt. verði nú samþ., til þess að hafa þessi mál í einu lagi. Hins vegar óskar hún eftir því, að efnisleg endurskoðun á ábúðarl. fari fram, og væntir þess, að ríkisstj. leggi fram frv. um þetta efni fyrir næsta Alþ. Það eru sum ákvæði í ábúðarl., sem orka tvímælis, og önnur, sem aldrei hafa verið framkvæmd, eins og húsabótaskylda á jörðum, og þar er það ríkið sjálft, sem mesta sök á varðandi vanrækslu á byggingu á jörðum, sem það sjálft á. Bæði þetta og margt annað gerir nauðsynlegt, að athugun fari fram á l., en landbn. taldi sér ekki fært að gera núna efnislegar breyt. í málinu og leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt.