04.12.1950
Neðri deild: 32. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í B-deild Alþingistíðinda. (1219)

56. mál, ríkisútgáfa námsbóka

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Eftir að menntmn. hafði gefið út álit um þetta mál og gert brtt. við frv., en það var flutt af hæstv. ríkisstj., þá barst inn til n. bréf frá skólaráði barnaskólanna hér í Reykjavík, sem fjallar um málið. Aðalefni þess er það, að skólaráðið leggur til, að námsbókagjaldið verði ákveðið ekki 15 kr., eins og í frv. stendur, heldur 25 kr., og heimild verði gefin til að hækka það í 50 kr., ef námsbækur eru látnar í té vegna unglingafræðslunnar að einhverju leyti. Þessa till. rökstuddi skólaráðið í bréfi sínu með því, að útgáfukostnaður hefði aukizt mjög mikið síðan árið 1940, svo að hann megi nú teljast fjórfaldur á við það, sem þá var. Enn fremur með því, að þörf sé á að gefa út nýjar námsbækur, sem að ýmsu leyti taki hinum eldri fram, því að alltaf þurfi endurskoðunar við í þessum efnum, en ef til þess komi, hljóti útgáfa námsbókanna að kosta miklum mun meira en að endurprenta eingöngu þær námsbækur, sem nú eru notaðar. Þessu bréfi fylgdi þó engin áætlun um það, sem fyrir lægi að framkvæma á þessu sviði á næstunni, og engin nánari skilagrein heldur um ríkisútgáfuna að einu eða neinu leyti, meiri en ég hef nú greint frá, að fram er dregið í þessu bréfi.

Þar sem engin áætlun liggur fyrir, og það, sem skólaráðið bendir á, liggur ekki nægilega ljóst fyrir á þessu stigi, að áliti menntmn., þá gerir n. ekki till. um að breyta frv., eins og það liggur nú fyrir, en mun á hinn bóginn gera menntmrn. nánari grein fyrir þessu nýja viðhorfi, og það m.a. með tilliti til þess, að málið á eftir að ganga gegnum hv. Ed.