27.10.1950
Efri deild: 10. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í B-deild Alþingistíðinda. (1232)

47. mál, loðdýrarækt

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Það kemur ljóst fram í grg. þessa frv., hvers vegna það er borið fram og hvert er efni þess. Og það er þá skemmst af því að segja, að frv. er flutt vegna þess, að það þykir naumast þörf á því að hafa ráðunaut í loðdýraræktarmálum, þar sem sá atvinnuvegur, loðdýraræktin, hefur að verulegu leyti dregizt saman og raunar á ýmsum sviðum lagzt niður hér á landi. Þetta er aðalástæðan til þess, að þetta frv. er borið fram, þar sem gert er ráð fyrir, að þetta starf loðdýraræktarráðunautarins verði lagt niður og að Búnaðarfélag Íslands taki að sér að annast hans verk. — Í öðru lagi er lagt hér til, að gerð verði sú breyt. á lögunum um loðdýrarækt frá 1947, að gerðar eru sérstakar kröfur um geymslu á minkum, eins og kemur fram í frv. Þó er gert ráð fyrir í frv., að gefa megi undanþágu frá þessu ákvæði, þar sem eigendur dýranna eiga sérstaklega góð minkabú. En eins og fskj., sem fylgir þessu frv., ber með sér, bréf frá Búnaðarfélagi Íslands til ráðuneytisins, þá er það skoðun stjórnar Búnaðarfél. Ísl., að nokkru nánar þurfi að ganga frá þessu atriði. Frv. var að sjálfsögðu sent til umsagnar Búnaðarfél. Íslands, og það féllst á, að ráðunautsstarf þetta verði lagt niður og að taka að sér þau störf, sem ráðunauturinn hefur haft með höndum. En stjórn Búnaðarfél. Ísl. telur, að þessu ákvæði frv. um geymslu minkanna þurfi að breyta, og kemur sérstaklega fram, að stjórn Búnaðarfél. Ísl. vill ganga enn lengra í þessu atriði en í frv. er gert ráð fyrir. Þess vegna koma fram a. n. l. tvær skoðanir í þessu bréfi, og vil ég láta þessa greinargerð um það fylgja með frv. til þeirrar n., sem tekur málið til meðferðar. Mun þá n. að sjálfsögðu velja þá leið, sem hún telur heppilegasta í þessu máli, og má nú gera ráð fyrir, að álit n. verði fremur á þá leið að gera öryggið enn þá meira.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum og hygg þess ekki þörf. Efni þessa frv. er ekki flókið og liggur ljóst fyrir af grg. og fskj., bréfi frá Búnaðarfél. Ísl. Vil ég óska þess, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn.