25.01.1951
Neðri deild: 55. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í B-deild Alþingistíðinda. (1252)

47. mál, loðdýrarækt

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Það er ekki ástæða til að fjölyrða út af ræðu hv. l. þm. Árn. (JörB), sem ég ætla, að ég sé að hlusta á frá orði til orðs í tíunda skiptið. Það er mála sannast, að meginhlutinn af ræðu hans kom málinu ekkert við, og það er eins og hann gangi út frá, að það sé einhver leyniþráður á milli þeirra dýra, sem eru í búrunum, og hinna, sem leika lausum hala, og um leið og búið sé að lóga síðasta minknum í búri, þá sé búið að útrýma öllum minkum í landinu. Mín skoðun er sú, að það verði að herja á sjálfan villiminkinn eins og hægt er, og þess vegna berum við í n. fram till. um sérstakar ráðstafanir til útrýmingar villiminki. Ég þekki villiminkinn eins vel og hv. 1. þm. Árn. og veit, hve mikill vágestur hann er bæði í ám og varplöndum, og á sjálfur eyju, sem hann hefur eyðilagt allt fuglalíf í. En það er rangt hjá hv. þm. að ætla, að villiminkaplágan sé gengin yfir um leið og eldisminkurinn sé úr sögunni. Þess vegna kom sá langi kafli ræðu hans, sem gekk út á að lýsa, hversu mikið háskadýr villiminkurinn væri, ekkert málinu við, því að allir eru sammála um að vilja gera allt, sem hægt er til þess að útrýma þessum skaðræðiskvikindum.

Hv. 1. þm. Árn. er óánægður yfir því, að við í n. skyldum leggja málið þannig fyrir, að þau sjónarmið fái að koma fram við atkvgr., sem í till. felast, og talaði mikið um afstöðu hv. Ed., og vitanlega hefði hún orðið sú sama, þótt hans frv. hefði verið þar. En við vildum nú gera hans frv. svo hátt undir höfði, að við vildum fá atkvgr. um það, sem hann hefur sjálfur borið fram, og finnst mér, að við ættum frekar skilið fyrir það þakkir hv. þm. en aðfinnslur.

Eins og málum er nú komið, finnst mér, að það verði að leggja aðaláherzluna á útrýmingu villiminksins, og er ég sammála hv. 1. þm. Árn. um það, að ég vildi óska, að sá atburður hefði aldrei gerzt, að þessi kvikindi voru flutt inn í landið, en úr því sem komið er finnst mér það vera að bæta gráu ofan á svart, ef á að meina mönnum að gera sér tekjur af eldisminki, meðan við stöndum máttlausir gagnvart villiminkinum. Ef við aftur á móti sæjum fram á, að við réðum við villiminkinn, þá væri ég miklu frekar til viðtals um útrýmingu eldisminksins, en finnst það vera að hafa hausavíxl á hlutunum, ef við byrjuðum á því að lóga þeim kvikindum, sem eru undir lás.