25.01.1951
Neðri deild: 55. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í B-deild Alþingistíðinda. (1254)

47. mál, loðdýrarækt

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Ég get ekki neitað því, að mér finnst minkafrv. það, sem hér liggur fyrir hv. deild, talsvert undarlegt plagg, og ég undrast yfir afstöðu þeirra hv. þm. Borgf. og hv. 1. þm. Árn. til þessa máls. Ég gat skilið þeirra frv., það var hreint frá gengið, í því fólst að banna minkaeldi með öllu. Ég held, að þó það frv., sem hér liggur fyrir, yrði samþ. og lögfest, þá sé það engin trygging fyrir því, að minkaeldi verði bannað að 5 árum liðnum. Það er ekki lengra síðan en á vorþingi 1950, að rjúpan var alfriðuð, en affriðuð aftur á haustþinginu. Gæti ekki skeð, að það sama yrði um minkinn, að þó að bannað yrði minkaeldi eftir 5 ár, þá yrði það leyft að þeim tíma liðnum? En það er annað verra í sambandi við þetta mál, og það er andi þessa frv. Það er illt, að fyrst er Alþingi búið að gangast fyrir því, að minkar verði fluttir inn í landið, búið að veita mönnum styrk og beinlínis narra menn til að gera þetta að atvinnurekstri, og svo skuli það læðast að þessum mönnum og gera atvinnurekstur þeirra að engu. Það urðu allmiklar umræður um frv. þeirra hv. þm. Borgf. og hv. 1. þm. Árn. á vorþingi 1950. Það frv. náði þá samþykki þessarar hv. deildar, en ekki hv. Ed. Ég mælti þá á móti því frv. sökum þess, að það eru ekki minkarnir í girðingunum, sem valda spjöllum, en hins vegar fellst ég á það, að fram hafa komið svo háværar raddir um þetta mál, að full ástæða er til að verða við þeim og banna minkaeldi í landinu, en Alþingi á að gera það á þann hátt, að það geti varið það. Ef þetta frv., sem hér liggur fyrir, yrði samþ., þá væri það vansæmandi fyrir hv. Alþingi. Það væri að ræna þá, sem hafa lagt í mikinn kostnað fyrir hvatningu frá Alþingi til þess að koma þessum búum upp. Svo þegar búið er að leggja í þennan kostnað, þá er lagt til, að búin verði lögð niður bótalaust. Þessa afgreiðslu tel ég vansæmandi fyrir hv. Alþingi. Þá er frv. þeirra hv. þm. Borgf. og hv. 1. þm. Árn. betra. Þar er hreint gengið að verki, og færi betur á, að það frv. yrði lögfest.

Ég vil aðeins geta þess, að það var ofmælt í ræðu hv. 1. þm. Árn. áðan, að villiminkur væri kominn um allar Breiðafjarðareyjar. Hann er hvergi kominn í eyjar á norðanverðum Breiðafirði. (PO: Hann er áreiðanlega kominn í nógu margar eyjar á Breiðafirði.) Það er alveg rétt, en betra er að hafa það heldur, er sannara reynist. Ég mun því frekar greiða atkvæði brtt. á þskj. 523, frá hv. þm. Dal. og hv. 5. landsk., þar sem gert er ráð fyrir, að minkaeldi verði bannað nú þegar; þar er hreint gengið að verki. Þó að þetta frv. verði samþ., þá er það engin trygging fyrir því, að minkaeldi verði ekki leyft að 5 árum liðnum.