25.01.1951
Neðri deild: 55. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í B-deild Alþingistíðinda. (1257)

47. mál, loðdýrarækt

Sigurður Ágústsson:

Það eru aðeins örfá orð út af ummælum hv. þm. Borgf., að ég hefði vegna þeirrar lexíu, sem ég hefði fengið hjá mínum kjósendum, tekið stefnubreytingu í þessu máli. Snæfellingar eru nú yfirleitt prúðir menn og gætnir og lítið fyrir að gefa sínum þm. lexíu, en hitt er annað mál, að ég tel það yfirleitt skyldu alþm. að láta sínar prívatskoðanir víkja, þegar þeir finna, að vilji alþjóðar fer í allt aðra átt. Þeir eru umboðsmenn síns kjördæmis og eiga að fara eftir því, sem samþykktir í héruðunum ganga. Ég tók það skýrt fram áðan, að ég mundi aldrei geta fylgt þessu frv. eins og það er komið frá Ed. Því er þannig háttað, eins og hv. þm. Dal. (ÁB) tók fram, að það er tvísýnt, hvort Alþ. getur samþ. það, og ég er þess vegna undrandi á jafngreindum og gætnum manni og hv. þm. Dal., að hann skyldi þó lýsa því yfir, að hann ætlaði að fylgja frv., ef brtt. hans og hv. 5. landsk. yrði ekki samþ.

Ég tel óþarft að fara fleiri orðum um þetta mál. Það hefur engin stefnubreyting orðið hjá mér í þessu máli, en ég vil segja, að þegar um tvennt erfitt er að ræða, tek ég að minnsta kosti það, sem ég tel mér vera skapi nær, þ.e. frv. þeirra hv. 1. þm. Árn. og hv. þm. Borgf. Ég mundi frekar greiða því atkv. en því frv., sem hér er til meðferðar, sem ég hef ákveðið að greiða mótatkv. Ég skil ekki í jafngreindum manni og þm. Borgf., að hann skuli líkja þessum tveimur frv. saman, frv. hans og hv. 1. þm. Árn. annars vegar og svo hins vegar þessu frv. hér, því að þau eru á svo margan hátt ólík, nema aðeins að því leyti, að það er gert ráð fyrir í báðum, að að lokum skuli verða bannað minkaeldi á Íslandi.

Ég tel svo óþarft að ræða þetta frv. meira að sinni. Ég geri ekki ráð fyrir því, — eða er það ætlun hæstv. forseta, að atkvgr. fari fram núna?