30.01.1951
Neðri deild: 58. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í B-deild Alþingistíðinda. (1263)

47. mál, loðdýrarækt

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Ég sé nú, að eftir atkvgr. við 2. umr. muni lítið þýða að ætla sér að koma með nokkrar till. til skynsamlegra úrræða í þessu máli eftir þeim vilja að dæma, sem þar kom fram. Nú er málið komið í það horf, að ákveðið er, að ísl. þjóðin verji næstu 5 árum ævi sinnar til að murka lífið úr þessum minkum, sem ekki ættu að vera neinn voði fuglum loftsins, fiskum sjávarins eða dýrum merkurinnar, eftir þeim fyrirlestrum að dæma, sem við höfum heyrt, en það eru ekki hreyfðar hendur né fætur til að skerpa sóknina gegn villiminknum, sem öll hættan stafar af. Málið er nú í því horfi, að ég vil ekki eiga neinn þátt í að ljá því atkv. mitt. Hins vegar eru í þessu frv. önnur ákvæði, sem ég tel rétt að komi fram og vil ekki setja mig gegn. Því mun ég ekki greiða atkvæði.