15.11.1950
Sameinað þing: 13. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í B-deild Alþingistíðinda. (1270)

80. mál, fjáraukalög 1947

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það er venja, að fjáraukalög koma í sameinað þing, hins vegar kemur landsreikningurinn fyrir deildir, en á milli þessara tveggja mála er náið samband. Nú er það svo, að á hverju ári síðan ég kom á þing hafa legið fyrir aths. við landsreikninginn, sem enda á þessa leið: vísað til aðgerða Alþingis. Hins vegar hefur Alþingi aldrei skipt sér neitt af þessu. Þegar ég hef minnzt á þetta í Ed., hefur verið viðkvæðið: Fjárl. eru afgr. í sameinuðu þingi og það á ekki við að ræða þetta hér. — Ég vil nú beina því til hv. fjvn., hvort hún vildi ekki athuga, hvaða liðum hér er farið fram á aukafjárveitingu fyrir, sem endurskoðendurnir hafa gert þá aths. við að vísa þeim til aðgerða Alþ.