30.10.1950
Neðri deild: 12. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í B-deild Alþingistíðinda. (1297)

49. mál, sveitarstjórar

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Frv. það til l. um sveitarstjóra, sem borið er fram á þskj. 83, er ekki nýr gestur hér á Alþ. Með þáltill., sem samþ. var á Alþ. 1949, var félmrn. falið að semja frv. um þetta efni, og í samræmi við það var á síðasta Alþ. borið fram frv. til l. um sveitarráðsmenn. Frv. þetta náði ekki samþykki Alþ., en hraktist milli d. og dagaði loks uppi. Félmrn. lítur svo á, að þingvilji muni vera fyrir því, að frv. í þessa átt verði samþ. hér á Alþ., og því hefur rn. látið endurskoða frv. það, sem lá fyrir í fyrra, og gert á því nokkrar breyt. í samræmi við þann vilja, sem þá kom fram á þinginu um málið. Er frv. nú borið fram í þessari nýju mynd, og leyfi ég mér að vænta þess, að það fáist samþ. á þessu þingi sem næst því, sem það er hér borið fram. Ég vil taka fram, að ég er fús til að ræða málið við þá n., sem fær það til athugunar, en ég hygg, að í meginatriðum sé gengið til móts við þær óskir, sem sérstaklega stóðu í vegi fyrir, að frv. næði samþykki í fyrra. Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um málið við þessa umr., þar sem það er nokkuð kunnugt hv. þm. og ýtarleg grg. fylgir frv., og leyfi ég mér að leggja til, að því verði vísað til hv. heilbr.- og félmn, að lokinni þessari umr.