04.12.1950
Neðri deild: 32. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í B-deild Alþingistíðinda. (1313)

55. mál, Náttúrugripasafn Íslands

Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Þetta frv. er flutt af hæstv. ríkisstj. og er þess efnis, að sett séu l. um náttúrugripasafnið, hliðstæð l., sem gilda um önnur hliðstæð söfn. Gert er ráð fyrir í frv., að náttúrugripasafnið verði jöfnum höndum stofnun, sem vinni að söfnun og geymslu náttúrugripa, og stofnun, sem hins vegar vinnur að almennum rannsóknum á íslenzkri náttúru. Frv. gerir ráð fyrir starfskröftum sams konar og gert var í öndverðu, þegar ríkið tók við safninu. Gert er ráð fyrir, að við safnið vinni þrír sérfræðingar: dýrafræðingur, grasafræðingur og jarðfræðingur. N. hefur athugað frv. og rætt það við hæstv. menntmrh. og dr. Finn Guðmundsson, aðalstarfsmann safnsins, og eftir þessar umræður hafa nm. verið sammála um að mæla með, að frv. verði samþ. óbreytt, eins og segir í áliti n. á þskj. 230.