08.12.1950
Efri deild: 33. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 586 í B-deild Alþingistíðinda. (1329)

132. mál, bifreiðalög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir að taka þetta mál á dagskrá, svo að hægt sé að koma því áleiðis til n.

Eins og menn muna, voru 1948 sett l. um, að menn þyrftu að ganga undir sérstakt próf til þess að fá réttindi til bifreiðakennslu. Ekki hefur samt orðið úr því, að þessum l. væri framfylgt til hlítar, vegna þess að þeir bifreiðastjórar, sem meira próf höfðu, risu mjög eindregið upp til andmæla og bentu á, að það væru einsdæmi, að með lagaákvæðum væru tekin af mönnum réttindi, sem þeir hefðu þegar öðlazt, og þar sem þeir hefðu haft réttindi til bifreiðakennslu, væri óverjandi að taka þau réttindi af þeim. Annað mál væri það, að héðan í frá væri krafizt sérstaks prófs af þeim, sem vilja taka að sér bifreiðakennslu. Ríkisstj. taldi vera nokkuð til í þessu, en benti á, að þá yrðu þeir of hart úti, sem þegar hafa innt af hendi allhátt gjald til þess að gerast ökukennarar. Hins vegar er ljóst, að óhæft er, að l. séu í gildi, en ekki fylgt til hins ýtrasta. — Til þess að koma skipan á þetta mál er frv. þetta flutt. Samkvæmt því er gert ráð fyrir, að þeir, sem hafa tekið meira próf fyrir lok þessa árs, haldi réttindum sínum til bifreiðakennslu, en hins vegar þurfi þeir að endurnýja réttindi sín á sama hátt og þeir, sem öðlast réttindin með sérstöku ökukennaraprófi. Með þessu virðist ekki á meiraprófsmenn hallað, en hins vegar ekki hægt að láta þá njóta meiri réttar en þá, sem innt hafa af höndum sérstakt próf, og virðist því frv. vera sanngjörn millileið. — Ég vil að lokum leggja til, að frv. verði vísað til hv. allshn.