26.01.1951
Efri deild: 56. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í B-deild Alþingistíðinda. (1333)

132. mál, bifreiðalög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson); Herra forseti. Eins og hv. frsm. allshn. hefur gert grein fyrir, þá hafa orðið nokkur vandkvæði á framkvæmd laganna um þetta efni frá 1948. Bifreiðastjórar hafa sýnt fram á, að ákvæði þessara laga um kennsluréttindi eru að ýmsu leyti óvenjuleg, þar sem skilyrði til meira prófs voru þrengd, en um leið tekin af mönnum með slíkt próf réttindi, sem því fylgdu, og játa ég, að mér hefur fundizt skoðun þeirra á málinu studd svo mikilli sanngirni, að ég hef ekki treyst mér til að framkvæma þessi lagaákvæði að fullu, og er ég að sjálfsögðu vítaverður fyrir það, en ég hef kosið, frekar en lenda í illdeilum við bifreiðastjóra, að láta lögin ekki koma til framkvæmda. Nú má segja, að það gagni lítið fyrir bifreiðastjóra að fá þessi ákvæði afnumin, er fjöldi þeirra, sem fá nú þessi réttindi, eykst mjög. En því er til að svara, að með þessu frv. hafa bifreiðastjórar ekki möguleika til að öðlast réttindi til kennslu nema til 1. apríl þessa árs, og auk þess þurfa þeir að láta endurnýja sín skírteini, og mun því þessi stóri hópur minnka bráðlega. Því tel ég ástæðulaust að óttast það, að hópur þeirra, sem fær ökukennsluréttindi, ef þetta frv. verður samþ., verði of stór. Þess skal getið, að bifreiðaeftirlitið mun vera mótfallið þessari breytingu, og er það eðlilegt, þar sem núgildandi lög í þessu efni eru frá því runnin. En þrátt fyrir það verður því ekki neitað, að bifreiðastjórar verða fyrir óvenjulegri hörku, ef svipta á þá réttindum til kennslu, sem nú hafa þau, og því mæli ég með því, að frv. verði samþ.