23.01.1951
Neðri deild: 54. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í B-deild Alþingistíðinda. (1349)

81. mál, ríkisreikningurinn 1947

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur lagt fram nál. á þskj. 533 og leggur til, að ríkisreikningurinn 1947 sé samþ. Á það er bent í nál., að eins og í fyrri reikningum sé nokkurt ósamræmi í reikningum einstakra sjóða, sem eru ríkiseign, og sjálfum ríkisreikningnum. Ábendingar um þetta munu einnig vera í aths. yfirskoðunarmanna, og vill fjhn. enn benda á, að æskilegt væri, að þessu væri komið í réttara horf framvegis, þannig að samræmi verði í reikningum hinna einstöku stofnana og sjóða og sjálfum ríkisreikningnum. Þessi ríkisreikningur, sem hér liggur fyrir, fyrir árið 1947, mun hafa hærri tölur að geyma en nokkur annar, sem samþ. hefur verið. Samkv. sjóðsyfirliti fjárl. fyrir þetta ár, 1947, var gert ráð fyrir því, að greiðslur ríkisins yrðu á því ári um 214 milljónir, en eins og reikningurinn, sem hér liggur fyrir, ber með sér, hafa þessar heildargreiðslur ríkissjóðs 1947 numið 327,7 millj., eða farið rúmlega 113 millj. fram úr áætlun fjárl., og er það meira en 50% sem greiðslurnar hafa numið fram yfir fjárl. Og samkv. þessum reikningi hafa lausaskuldir ríkisins á árinu 1947 hækkað um það bil 66 millj. króna.

Eins og venjulega hafa þeir yfirskoðunarmenn, sem Alþ. hefur kosið til að fara yfir þennan ríkisreikning, gefið út nokkrar aths. við reikninginn, sem síðan hefur verið svarað af ráðh., og yfirskoðunarmenn síðan gert till. til úrskurðar samkv. venju. Ég hef litið yfir þessar aths. yfirskoðunarmanna, og eftir að hafa kynnt mér þær nokkuð, finnst mér ástæða til að beina þeirri fyrirspurn til þeirra, því að tveir af yfirskoðunarmönnum eiga sæti í þessari hv. d., hv. 1. þm. Árn. og hv. þm. A-Húnv., eftir hvaða reglum þeir framkvæma sín störf, eða hvort ekki séu til einhverjar reglur um það; skráðar eða óskráðar, en þessir tveir þm., sem ég nefndi, hafa verið yfirskoðunarmenn ríkisreikninganna um langan tíma. Mér fyndist fróðlegt að heyra frá þeim, hvort ekki hafi verið, þegar þeir byrjuðu sín störf, neinar slíkar reglur um framkvæmd verksins, eða, ef svo hefur ekki verið, hvort þeir hafi þá aldrei sett sér sjálfir neinar ákveðnar starfsreglur til að fara eftir við yfirskoðun og athugasemdaflutning í því sambandi. En miðað við þessar aths. hefur mér virzt það nokkuð handahófskennt, hvað yfirskoðunarmenn taka í sínar aths. við ríkisreikninginn, og vil ég nefna nokkur dæmi um það.

Ein aths., sem þeir gera, er um reikninga póststofunnar í Reykjavík. Þeir segja, að reikningarnir beri með sér, að mikið sé um aukavinnu í þeirri stofnun, og geta þess, hvað mörgum starfsmönnum hafi verið greitt, hverjum fyrir sig, fyrir aukavinnu, og segja síðan, að það virtist rétt að athuga, hvernig háttað er störfum við stofnunina. — Ég dreg ekki í efa, að réttar séu þær tölur, sem þeir birta til upplýsinga um þetta, en ég veiti því athygli, að greiðslur til póststofunnar, sem þeir nefna hér, eru 25 af hundraði umfram fjárlagaáætlun. Til samanburðar kom ég auga á, að önnur stofnun, sem virðist nokkuð hliðstæð, bæjarsíminn í Reykjavík og Hafnarfirði, er með umframgreiðslur hér um bil nákvæmlega jafnmikið, 25 af hundraði. Hins vegar er nokkru meiri viðskiptavelta hjá bæjarsímanum en hjá póststofunni, þar er um hærri fjárhæðir að ræða, bæði tekjur og gjöld. — Það er síður en svo, að ég sé að gera aths. við það, þó að hér sé vakin athygli á umframgreiðslum hjá póststofunni eða aukavinnu, en mér fyndist ekki óeðlilegt, að einnig væri minnzt á hina stofnunina, þar sem umframgreiðslur umfram fjárl. eru jafnmiklar hlutfallslega hjá báðum stofnununum.

Þá er hér 14. og 15. aths. hjá yfirskoðunarmönnum. Sú 14. er þannig, að rekstrarhagnaður af Reykjabúinu með gróðurhúsum og garðrækt nemur kr. 35.300,88, aðalhagnaðurinn er af gróðurhúsunum, og 15. aths., rekstrarhalli Hvanneyrarbúsins, nemur kr. 19.108,27. Annað er ekki um þetta sagt, og svör ráðh. um þetta eru á þá leið, að þessi aths. gefi ekki tilefni til svars. Ég fæ ekki séð, hvernig ráðh. getur svarað þessu á annan veg. — En nú hef ég athugað í ríkisreikningnum, hvernig þetta er með önnur ríkisbú, hvort það eru sléttir reikningar hjá þeim fyrir þetta ár, en svo er ekki. Hér er t.d. Vífilsstaðabúið. Þar er rekstrarhagnaður kr. 34.525,95, en hins vegar er þess að engu getið í aths. og virðist heldur ekki ástæða til, en þetta vildi ég benda á til samanburðar, vegna þess að getið er um rekstrarhagnað Reykjabúsins, 35.000 kr. — Þá er Kleppsbúið, þar er rekstrarhagnaður 11.600 kr., og Bessastaðabúið, þar er rekstrarhalli 27.214 kr. Hvernig stendur á því, að þetta er ekki tekið upp í aths.? Hins vegar er tekinn í 45. aths. rekstrarhalli Hvanneyrarbúsins, 49.108,27 kr. — Nú finnst mér nokkuð handahófskenndar slíkar aths. Það er sem sagt aðeins nefnd útkoman hjá 2 búum í aths., ég veit ekki af hverju.

Þá er 16. aths. hjá yfirskoðunarmönnum, sem er nokkru umfangsmeiri en þetta; það er um atvinnudeild háskólans. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Til starfsemi Atvinnudeildar háskólans hefur verið varið allmiklu fé. Starfsemi stofnunarinnar er margþætt og allumfangsmikil.“ Síðan er talið upp, hver gjöld hafi verið hjá iðnaðardeildinni, fiskideildinni og búnaðardeildinni. En ef maður fer að athuga reikninga þessara stofnana hér í ríkisreikningnum, þá kemur í ljós, að gjöld allra þessara undirdeilda, sem hér eru taldar í aths., eru lægri en áætlað var í fjárl. Þá segja þeir hér, að sameiginlegur kostnaður sé 161.593,75 kr., en mér sýnist á reikningnum, að hann sé 159.441,60 kr., og þessi sameiginlegi kostnaður muni vera lítið eitt hærri en fjárl. gerðu ráð fyrir, sameiginlegur kostnaður 159 þús. kr., en var áætlaður 123 þús. kr. — Þá er talað um að gjöldin á tilraunabúunum á Hesti og Úlfarsá hafi farið fram úr áætlun. En ef við tökum þessar stofnanir, atvinnudeildina og þar með talin þessi bú, á Hesti og Úlfarsá, þá kemur í ljós, að heildarkostnaður við atvinnudeildina er 124.000 kr. lægri en áætlað var í fjárl. En yfirskoðunarmenn sjá ástæðu til þess að gera þessa stofnun sérstaklega að umræðuefni. Það er rétt hjá þeim, að þetta eru mikil útgjöld, en hins vegar má telja það heldur til undantekninga, ef ríkisstofnun á þessu ári hefur eytt minna en áætlað var í fjárl., þær eru flestar hinum megin við markið, þær hafa eytt meira fé en áætlað var í fjárl. Þess vegna er það nálega dularfullt fyrirbrigði, að yfirskoðunarmenn skuli taka upp í sínar aths. sérstaklega þá ríkisstofnun, eina af þeim sára fáu, sem hefur komizt af með minna fé til rekstrarins en fjárl. gerðu ráð fyrir. Það væri fróðlegt að fá á þessu skýringu hjá yfirskoðunarmönnum.

Þá finnst mér hins vegar, frá mínu leikmannssjónarmiði, ástæða til að bera fram aðrar aths., sem þarna er sleppt að nefna. Á 20. gr. reikningsins er ákaflega mikil umframgreiðsla umfram það, sem áætlað var í fjárl. Það var gert ráð fyrir greiðslum á 20. gr. 171/2 milljón króna, en þær hafa orðið yfir 72 milljónir. Einn liður á þessari 20. gr. eru keypt verðbréf fyrir 1.027.500 kr. Ég vil spyrja, — ég geri ráð fyrir, að yfirskoðunarmenn hafi athugað þennan lið, — hvort það muni vera nokkurs staðar heimild fyrir ríkisstj. til að kaupa þessi bankavaxtabréf; í viðkomandi fjárl. hef ég ekki getað komið auga á það.

Þá er annar liður, einn af þeim stærstu í 20. gr., það er 27. gjaldaliðurinn. Þar stendur: Veitt lán úr ríkissjóði 10.987.826,39 kr. — Ég var að kynna mér í ríkisbókhaldinu, hvaða upphæðir væri þarna um að ræða. En það kennir margra grasa í þessum lið, og mikið af þessum greiðslum er vegna ýmissa ríkisframkvæmda, sem ákveðnar hafa verið með l., en eru á því stigi framkvæmda, að þeim hefur ekki verið lokið eða a.m.k. ekki reikningsskilum lokið, þegar reikningurinn var gerður upp, og þær upphæðir, sem búið er að verja til þessara framkvæmda, eru færðar undir þennan lið: veitt lán. En einnig er stór liður á reikningnum, greiðslur af lánum, sem ríkið hefur ábyrgzt, og nema þær yfir 4 millj. króna. Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að gera grein fyrir þessum upphæðum. Síldarverksmiðjur ríkisins hafa fengið vegna ábyrgðar 3 millj. 248 þús. kr. og rafveita Siglufjarðar 728 þús. kr., hafnargerðin á Skagaströnd 136 þús. kr., samvinnubyggingarfélag í Ólafsvík 18 þús. og hafnargerðin á Húsavík 12 þús. kr. Mér hefur fundizt, að ekki væri minni ástæða til fyrir yfirskoðendur að víkja að þessu máli og athuga, hvort ekki væri hægt að komast hjá þessum greiðslum og kippa í lag því, sem ríkið hefur orðið að greiða. Það sést í ríkisreikningnum, að ábyrgðargreiðslurnar hafa orðið miklar, og hefur þó bætzt við síðan. Það er ástæða til að minnast á þetta ekki síður en þó að nokkur þús. kr. hagnaður sé af tveimur ríkisbúum. Það er ein lánsupphæð undir þessum lið, sem sé til hafnargerðar á Ólafsfirði, 1/2 millj. kr. Hefur þetta verið heimilað á Alþingi? Skv. 13. gr. ríkisreikn. hefur verið varið 280 þús. 500 kr. til hafnargarðs á sama stað. En nú hefur ríkisstj. lánað 1/2 millj. kr. til viðbótar til þessa staðar. Nú vil ég spyrja endurskoðendurna, hvort heimild sé fyrir þessu.

Ég er enginn sérfræðingur í að endurskoða reikninga, en mér hefur fundizt, að þegar um er að ræða stórar fjárhæðir umfram heimild, þá væri það mál, sem yfirskoðendur ættu að vekja athygli á. Þetta er það, sem ég hef komið auga á í reikningunum og þætti fróðlegt að heyra um.

Ég minntist á atvinnudeildina og finnst mér það vafasamt að gera aths., þegar svona stendur á og þegar þeim stofnunum er sleppt, sem eyða miklu fé umfram heimild.