23.01.1951
Neðri deild: 54. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í B-deild Alþingistíðinda. (1350)

81. mál, ríkisreikningurinn 1947

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því, að hér á Alþingi hefur verið samþ. till. frá mér og hv. þm. N-Ísf. um samþykkt á ríkisreikningnum. Sú till. felur í sér, að reikningarnir séu samþ. á Alþingi árið eftir að þeir eru samdir. Þegar við fluttum þessa till. árið 1945, vorum við orðnir 4 ár á eftir tímanum, og get ég sagt, að áunnizt hafi 1 ár síðan þessi till. var flutt. Gera þm. sér nú ljóst það ósamræmi að vera nú að samþ. reikninga fyrir árið 1947? Það er líkt með þjóðarbúið og önnur fyrirtæki. En nú vil ég spyrja endurskoðendurna, hvort þeir hafi gert allt, sem í þeirra valdi stóð, til að kippa þessu í lag og koma því í það form, sem Alþingi hefur samþ. Ef þeir hafa gert það, hvernig stendur þá á því, að það er ekki hægt að koma viðunandi skipulagi á þetta?

Það er hlægilegt, að við skulum vera að ræða árið 1951 um reikninga fyrir árið 1947, sem hafa farið 50% fram úr áætlun. Ég endurtek athugasemdir mínar um þetta og finnst þetta óviðunandi og skil ekkert í því, að ekki sé hægt að hraða ríkisreikningunum meira en gert hefur verið. Bókhald ríkisins verður að komast í viðunandi form, svo að hægt sé að ræða reikningana án þess að þeir séu í svo mikilli fjarlægð, að menn séu búnir að gleyma þeim. Þegar um er að ræða, að liðin séu 3–4 ár frá því ári, sem reikningarnir eiga við, er sá háttur oft hafður á að samþ. þá, þó að þeir hafi farið langt fram úr áætlun. Á þskj. 533 leggur fjhn. til, að reikningarnir verði samþ., þó að hún hafi margt við þá að athuga. Þegar reikningarnir liggja fyrir Alþingi, getur það ekki annað en samþ. þá. Ég vil skora á endurskoðendur ríkisreikninganna að gera nú tilraun til ekki aðeins að vinna upp 1 ár, heldur eiga þeir eftir að vinna upp 2 ár. Væri nú um að ræða reikninga fyrir árið 1949, mætti segja, að þetta væri viðunandi. Reikningar fyrir árið 1950 eiga að liggja fyrir Alþingi 1951. Þetta er sú krafa, sem Alþingi gerir og er í samræmi við þá samþykkt, sem gerð var fyrir 5 árum.