23.01.1951
Neðri deild: 54. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í B-deild Alþingistíðinda. (1356)

81. mál, ríkisreikningurinn 1947

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég mun ekki að þessu sinni flytja endurskoðendunum neina ástarjátningu, eins og hv. 2. þm. Rang. hefur gert. Hann sagðist vilja fyrirgefa þeim mikið. Kærleikurinn umber allt. — Ég skaut hér fram spurningum til yfirskoðunarmannanna viðvíkjandi einstökum liðum reikningsins, sem þeir hafa engar aths. gert við. Ég spurði t.d. um bankavaxtabréfin, sem ríkisstj. keypti á þessu ári fyrir h.u.b. 930 þús. kr. Þeirri spurningu minni hafa þeir ekki svarað, og býst ég við, að þeir hafi ekki svarið á reiðum höndum, svo að þetta mætti athuga fyrir 3. umr. frv. Ég hef ekki heldur fengið nein svör við spurningu minni um 1/2 millj. kr. lánveitingu til Ólafsfjarðarhafnar. En sessunautur minn, hv. 1. þm. Árn., segir mér, að sig minni, að heimild til þessarar lánveitingar sé í hafnarlögunum. En ég held, að hér sé aðeins um ríkisábyrgð að ræða, ef ég man rétt.

Hv. 1. þm. Árn. viðurkenndi, að það vantaði samræmi í aths. yfirskoðunarmanna, og sagði, að bollaleggingarnar um tvö ríkisbúin ættu e. t. v. ekkert erindi í aths. En það hefði kannske mátt benda á, að búið í Ölfusi hefur haft þá sérstöðu, að það hefur aðallega hagnazt af gróðurhúsunum, en af búinu að Hvanneyri hefur verið halli og farið minnkandi hin síðari ár, og sér hefði fundizt ástæða til að geta þess, að hallinn hafi farið minnkandi með hverju ári. En eins og þetta er sett fram, get ég ekki séð, að þetta eigi erindi í umsögn þeirra.

En ég kem nú aftur að atvinnudeildinni og því, sem ég minntist hér á áðan í því sambandi. Þá gerði ég grein fyrir því, að við heildaruppgjör hefðu útgjöldin orðið lægri en gert var ráð fyrir á fjárlögunum. Þetta verðlauna yfirskoðunarmennirnir með því að átelja sérstaka eyðslu við þessa stofnun og vekja athygli á henni á þeim grundvelli. Það gerir kannske ekki mikið til, vegna þess að ekkert sé gert með þetta, en þó hygg ég, að það sé lesið upp í útvarpið og þar vakin athygli á því, að þessi stofnun fari illa með fé, þótt hún hafi notað minna fé en henni var ætlað á fjárlögunum. En um það eru fá dæmi, og er hitt venjulegra, að meira fé sé notað en áætlað er á fjárlögum, t.d. notaði utanríkisþjónustan tæpl. 70% meira en áætlað var.

Hv. þm. A-Húnv. lagði áherzlu á, að ríkisútvarpið hefði notað fé fram yfir áætlun fjárl., og er það rétt. En þar skilar reksturinn l.3 millj. kr. hagnaði fram yfir það, sem áætlað var á fjárl. Hv. þm. segir, að það sé m.a. hlutverk yfirskoðunarmanna að gera aths., ef ríkisstj. fer út fyrir hinn afmarkaða ramma fjárlaganna. Og ég fann að því í þessu sambandi, að mér þætti einkennilegt, að þeir skyldu ekki gera aths. við kaupin á bankavaxtabréfunum og lánið til Ólafsfjarðarhafnar.

Það kom fram í ræðu hv. 1. þm. Árn., að starfsreglur yfirskoðunarmanna séu ófullkomnar. Mér finnst satt að segja, þar sem þessir menn eru búnir að vera meira en áratug við þessi störf, að þeir hefðu átt að vera búnir að setja sér ákveðnar starfsreglur, því að þá væru störf þeirra ekki eins flaustursleg og raun ber vitni. Þeir hafa lýst yfir, að þeir hafi haft slæm starfsskilyrði, en að nú hafi eitthvað verið bætt úr því, þannig að þau væru orðin þolanlegri. Það má auðvitað segja, að ég, sem hef setið lengi á þ. með þessum yfirskoðunarmönnum, byrji nokkuð seint á að yfirskoða þeirra yfirskoðun og minna á þessi atriði, en þetta mun þó ekki vera í fyrsta skipti, sem ég geri aths. við það, sem frá þeim kemur í sambandi við ríkisreikninginn. Það væri æskilegt, að þessu starfi væri hagað á annan veg en nú er, þannig að minna flausturs gæti við framkvæmd yfirskoðunarinnar, en nú lítur út fyrir, að störf yfirskoðunarmanna fari eftir því, hvernig andi kemur yfir þá þennan eða hinn daginn, sem þeir eru að störfum.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta, því að, — eins og áður hefur verið tekið fram af öðrum ræðumönnum, — þá er ekki annað að gera en að samþ. reikninginn eins og hann er, þótt ýmislegt athugunarvert kunni þar að þykja.