25.01.1951
Neðri deild: 55. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í B-deild Alþingistíðinda. (1361)

81. mál, ríkisreikningurinn 1947

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Síðast þegar þetta frv. var til umr. hér í d., talaði ég og gerði örfáar aths. við ræðu hv. 1. þm. Árn. um þetta mál. Hann minntist á síldarverksmiðjur ríkisins, þó að mér virtist þær ekki koma málinu við. Ef ég man rétt, mun ríkisstj. hafa falið nefnd að athuga byggingarreikninga síldarverksmiðjanna, og mun það hafa verið þetta, sem hann átti við.

Ég hef ekki orðið var við, að ríkisstj. hafi lagt fram neina skýrslu um þessa endurskoðun. Fjhn. þessarar deildar hefur ekki verið falið að endurskoða þessa reikninga, og kemur þetta því fjárhagsnefndarmönnum ekki meira við en öðrum þingmönnum. Hann hafði það eftir mér, að endurskoðendur þyrftu að hafa skráðar reglur til að fara eftir. Ég spurði bara, hvort þeir hefðu ekki reglur, skráðar eða óskráðar, en ég tel þær jafngóðar, hvort sem þær eru skráðar eða óskráðar. Þá skildist mér á honum, að hann vildi halda, að ég væri að skopast að þeim fyrir að vera í húsnæðishraki, en það er langt frá því. Um kostnaðinn við endurskoðunina skal ég ekki fara mörgum orðum; tel hann ekki svo mikinn, að ástæða sé til að ræða um það, ef yfirskoðunin er framkvæmd á þann hátt, sem upphaflega var til ætlazt. — Ég mun ekki hafa fleira að taka fram um þetta, en ég ítreka, að endurskoðendurnir þurfi að hafa ákveðnar reglur til að fara eftir, svo að þetta sé ekki gert af handahófi í hvert sinn.