25.01.1951
Neðri deild: 55. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í B-deild Alþingistíðinda. (1362)

81. mál, ríkisreikningurinn 1947

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég skal hafa þetta stutt, enda þarf ég ekki að bera af mér neinar sakir. Það er út af tveimur atriðum, sem ég mundi ekki greinilega, og þá fyrst viðvíkjandi þessari 1/2 millj. kr., sem var veitt til hafnargarðsins í Ólafsfirði, hvort heimild hafi verið fyrir því eða einhver ástæða. Heimild var ekki fyrir hendi, en skemmdir höfðu orðið á höfninni, svo að ef ekki var bætt eins fljótt úr og gert var, mátti búast við, að höfnin eyðilegðist. Bærinn hafði ekkert fé undir höndum til að greiða þetta, svo að ríkið ákvað að greiða þetta til að spilla ekki framkvæmdunum meira og tók þetta af fjárveitingu til hafnarinnar á næsta ári. Frekari aðgerðir voru aðkallandi, svo að það gat ekki tekið það af því, sem það hafði þegar veitt, en meiningin var að gera það eins fljótt og unnt væri. — Viðvíkjandi hinu atriðinu, bankaverðbréfunum, þá tók ríkið lán árið 1926 hjá Statsanstalten for Livsforsikring. Það lán var bundið við það, að viss upphæð lægi hjá bankanum. Nú vildi svo til áríð 1946, að það vantaði mörg bréf í bankann, svo að ríkisstj. kaupir bréfin og fær af þeim vexti. Upphæðin minnkar, en bréfin voru fyrr dregin út en upphaflega var gert ráð fyrir. Það er ekki ástæða til að fara frekar út í þetta, og geta allir séð það á ríkisreikningum.

Ég drap á síldarverksmiðjurnar, en það gat ekki verið öðruvísi, því að ríkið fékk það mál til meðferðar. Síðan hefur farið fram rannsókn, og höfum við spurt, hvað þessu liði, en ekkert hefur komið fram. Þetta er sameiginlegt fyrir fjhn. og yfirendurskoðendur, og ætla ég, að það halli sízt á endurskoðendurna.

Viðvíkjandi því, hvaða reglum við yfirskoðunarmennirnir förum eftir í starfi okkar, þá vil ég benda hv. þm. á það, sem ég hef áður gert í umr. um þetta mál, að um það eru ákvæði bæði í stjórnarskránni og lagafyrirmælum frá 1935 eða '36, og ég hef áður getið um það, eftir hvaða reglum við færum í starfinu, og sé ég svo ekki ástæðu til að orðlengja um þetta.