25.01.1951
Neðri deild: 55. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í B-deild Alþingistíðinda. (1363)

81. mál, ríkisreikningurinn 1947

Jón Pálmason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af orðaskiptum okkar hv. þm. Mýr. fyrir nokkrum dögum um yfirstjórn á fjárreiðum atvinnudeildar háskólans. Þetta er lítilvægt atriði, en hér er um að ræða tvær stofnanir, sem sami maður veitir forstöðu, og það er rétt hjá hv. þm. Mýr., að hann skipaði Þorbjörn Sigurgeirsson formann rannsóknaráðs ríkisins tveim dögum áður en hann fór úr ráðherrastóli, en ég ákvað, að atvinnudeildin skyldi einnig hlíta yfirráðum hans, svo að við höfum báðir nokkuð til okkar máls.

Út af fyrirspurn hv. þm. V-Húnv. um það, hvort við yfirskoðunarmennirnir hefðum ekki einhverjar reglur til að fara eftir í starfi okkar, þá vil ég taka fram, eins og hv. síðasti ræðumaður gerði, að við höfum sérstakar reglur að fara eftir samkv. stjskr., og svo hafa yfirskoðunarmennirnir einnig vissar venjur, sem þeir fara eftir. Hv. 1. þm. Árn., sem er nokkru eidri en ég í starfinu, fór fyrstu árin nokkuð lengra í endurskoðuninni heldur en við höfum gert síðari árin, en því var tekið heldur illa, og Alþ. tók ekki mark á þeim aths., sem gerðar voru, svo að samkomulag varð um það okkar á milli að fara ekki lengra í þessum efnum en við værum skyldir til samkv. stjskr. En það er margt, sem miður hefur farið, svo að full ástæða væri fyrir fjhn. og Alþ. að fara út í frekari athugun á því, en það hefur ekki verið gert, og snýr margt af því að þinginu, svo sem fjáreyðsla, sem engar heimildir eru til fyrir, o.s.frv.