25.01.1951
Neðri deild: 55. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í B-deild Alþingistíðinda. (1364)

81. mál, ríkisreikningurinn 1947

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Mér kemur nokkuð á óvart að heyra það, sem hv. 1. þm. Árn. sagði hér, að hvorki yfirskoðunarmenn ríkisreikningsins né fjhn. hafi orðið varir við, að endurskoðun reikninga vegna byggingar síldarverksmiðjanna á Skagaströnd og Siglufirði væri lokið. Mér er kunnugt, þar sem ég hef stundum setið sem varamaður í síldarútvegsnefnd, að þessari endurskoðun er fyrir löngu lokið. Það var framkvæmt svo, að fyrst voru þeir endurskoðaðir af tveim hæstaréttarlögmönnum og síðan af þeim Sigurði Jónssyni, fjármálalegum framkvæmdastjóra síldarverksmiðja ríkísins, og Erlendi Þorsteinssyni, og sú endurskoðun leiddi til þess, að tvö fyrirtæki og ég held raunar þrjú, vélsmiðjan Héðinn, Almenna byggingarfélagið og rafmagnsfirmað Jóhann Rönning, — endurgreiddu síldarverksmiðjunum nær 1 millj. kr. Mjölhússagan frá Siglufirði hefur áður verið rakin svo rækilega hér, að ég sé ekki ástæðu til að fara út í hana nánar, og vegna hennar endurgreiddi vélsmiðjan Héðinn nokkra tugi þúsunda. Og alls nam endurgreiðsla þessara þriggja fyrirtækja um 1 millj. kr. á reikningum, sem byggingarnefndin var búin að samþykkja. Ýmislegt fleira kom fram við þessa endurskoðun, svo sem að ýmsir menn voru taldir hafa unnið mánuðum saman í sambandi við byggingarframkvæmdir, sem síðar kom í ljós við athugun, að þeir hefðu ekki unnið. Og niðurstaðan var sú, að eftir að hæstaréttarlögmennirnir og þeir Sigurður og Erlendur höfðu yfirfarið reikningana, þá var endurgreidd um 1 millj. kr. Það liggja fyrir skýrslur um þessa endurskoðun bæði frá hæstaréttarlögmönnunum og þeim Sigurði og Erlendi, svo að mér kom nokkuð spánskt fyrir, þegar ég heyrði, að yfirskoðunarmönnunum var ekki kunnugt um, að endurskoðun væri lokið, og að fyrir lægju skýrslur um þetta, eins og ég hef nú gert grein fyrir.