26.01.1951
Efri deild: 56. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í B-deild Alþingistíðinda. (1373)

49. mál, sveitarstjórar

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég hef ekki getað orðið samþykkur meiri hl. um afgreiðslu málsins og hef því gefið út sérstakt nái. á þskj. 527.

Það er rétt, sem hv. frsm. meiri hl. sagði, að frv. er nú mjög fært í það horf, sem hv. deild gekk frá því á síðasta þingi, en því var þá breytt aftur í Nd. Hæstv. félmrh. hefur nú látið undirbúa málið fyrir þetta þing, og farið mjög inn á þá braut, sem þessi hv. deild fór í fyrra, en það eru þó ekki tekin upp öll þau atriði, sem þá voru samþ., og því vil ég ekki, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir, en vil fá á því þær leiðréttingar, sem fengust í fyrra, og þær eru bornar fram á þskj. 527.

1. brtt. er við 5. gr. og er um, að í stað þess, að fyrirskipað sé með lögum, að sveitarstjóri fari með störf oddvita, þá sé það heimilt, á sama hátt og heimilt er að ráða sveitarstjóra. Þannig var gengið frá þessu ákvæði í fyrra, og er hér tekið orðrétt upp eins og það var þá samþ. Þetta er þá á valdi hverrar sveitarstjórnar á sínum tíma, og þykir mér það eðlilegra en að það sé ákveðið með lögum.

B-liður 1. brtt. er um, að 2. málsgr. 5. gr. falli niður, en sú málsgr. hljóðar þannig: „Að öðru leyti skal starfssvið sveitarstjóra og verkaskipting milli hans og oddvita nánar ákveðin í samþykkt um stjórn málefna sveitarfélagsins, sem hreppsnefnd semur, en félmrn. staðfestir.“ Ég álít, að þetta eigi að vera í samningnum milli sveitarstjórnarinnar og sveitarstjórans og starfssvið sveitarstjórans ákveðið þar, en ekki hér. Þess vegna legg ég til, að þessi málsgr. falli niður.

2. brtt. mín er við 6. gr., um að 2. málsgr. falli niður. Um þetta var mikið deilt á síðasta þingi, en málsgr. er þannig: „Nú er hreppsnefndarmaður kjörinn sveitarstjóri, og fellur þá niður umboð hans sem hreppsnefndarmanns þann tíma, er hann gegnir sveitarstjórastarfi, en varamaður hans tekur sæti í hreppsnefndinni.“ Ég sé enga frambærilega ástæðu til, að maður víki úr hreppsnefnd, þó að hann sé kjörinn sveitarstjóri, frekar en maður, sem kjörinn er oddviti. Mér finnst þvert á móti eðlilegt, að hann sitji áfram í hreppsnefnd, þó að honum sé falin stjórn og reikningshald ýmissa mála.

Síðasta brtt. mín er við 8. gr. frv. og er um, að hún falli niður úr lögunum. Ég skal viðurkenna, að það er eðlilegt, að slíkur maður verði að víkja úr embætti sínu fyrir ítrekaða vanrækslu, en það á að vera samningsatriði og ekki þurfa lagaákvæði til, enda stendur það ekki í lögum um aðra embættismenn. Það er hins vegar í lögum, að ýmsir menn, sem sérréttindi hafa, t.d. bilstjórar, verði að sæta ábyrgð eða víkja frá starfi, ef þeir t.d. aka undir áhrifum áfengis, en líkt ákvæði og þetta stendur hvergi um embættismenn. Ég vil þó endurtaka, að ég er ekki að mæla með, að þessir menn vanræki störf sín eða að það verði látið óátalið, ef þeir verða fundnir sekir um hirðuleysi. Sé ég svo ekki ástæðu til að ræða málið nánar.

Það var þrautrætt á síðasta þingi, og í mínum till. er ekkert, sem ekki var samþ. þá, og legg ég til, að þær verði samþ. aftur núna. Að öðru leyti er ég frv. sammála, þó að ég telji, að það breyti ákaflega litlu.