26.01.1951
Efri deild: 56. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í B-deild Alþingistíðinda. (1375)

49. mál, sveitarstjórar

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja umræðurnar lengi, þetta mál hefur verið rætt svo mikið hér í deildinni áður.

Ég var ekki staddur á fundi heilbr.- og félmn., en ég var samþykkur hv. þm. Barð. í fyrra um brtt. við frv., og ég geri ráð fyrir, að ég hefði orðið það líka nú.

Það er rétt, að það er nokkurt tilefni til að gera breytingar á gildandi ákvæðum sveitarstjórnarlaganna um framkvæmdastörf sveitarstjórnar. Af þeim sveitarfélögum, sem hafa verulega íbúatölu, eða yfir 500, eru þess dæmi, að sveitarfélög eru til, sem ekki eru kaupstaðir, en hafa þó yfir 1500 íbúa, og þar hefur það komið í ljós, að erfiðleikar eru á framkvæmd sveitarstjórnarmálefnanna, ef litið er mjög á bókstaf sveitarstjórnarlaganna eins og þau eru nú. Því er einfalt mál, að breyta má sveitarstjórnarlögunum svo, að það standi á engan hátt fyrir sveitarfélögum, þó að þau vilji koma stjórn sinna mála öðruvísi fyrir. Ég veit ekki til, að það standi fyrir neinni sveitarstjórn, sem vill koma framkvæmdastjórn sinna mála öðruvísi fyrir en gert er ráð fyrir í lögum, að fá þær breytingar fram með samþykki viðkomandi sýslunefndar. Ég veit ekki til, að neitt af þeim sveitarfélögum, sem hafa yfir 500 íbúa og óskað hafa eftir breytingu á framkvæmdastörfunum, hafi óskað eftir neinum ákvæðum, sem svipuð væru þeim, sem eru í þessu frv. Aðalatriði þessa frv. voru að gera það lögbundið, að öll sveitarfélög, sem höfðu vissa tölu íbúa, áttu að vera skyld til að ráða sérstakan embættismann. Það var að mínum dómi fráleitt. Enn fremur var ákveðið, að launakjör hans skyldu alls staðar vera hin sömu, og væri hreppsnefndarmaður kjörinn sveitarstjóri, þá átti umboð hans sem hreppsnefndarmanns að falla niður. Öll þessi ákvæði voru algerlega fráleit. Og ég skil ekki í því, að hæstv. félmrh. skuli hafa flutt slíkt frv. á ný inn í þingið, eftir að Alþ. breytti því eins og það gerði á síðasta þingi, en nú er þetta aðeins í heimildarformi, svo að það er mun aðgengilegra en það var, en betra hefði þó verið að gera aðeins breytingar á ákvæðum sveitarstjórnarlaganna. Hv. 1. þm. Eyf. benti á, að ákvæði þeirra laga væru þröng í þessum efnum, en ég held, að nú séu á leiðinni breytingar á þeim ákvæðum l., sem eru orðin úrelt, en það eru mörg ákvæðin, sem eru orðin það. En ég held, að það hefði verið hægt að notast við þau enn um stund með því móti, að sýslunefndirnar hefðu verið hliðhollar í þessum efnum.

Af brtt. hv. þm. Barð. held ég að 2. till., um það að fella niður það ákvæði í frv., sem kveður svo á, að hreppsnefndarmaður verði að leggja niður það umboð, sem kjósendur hafa gefið honum, ef hann gerist sveitarstjóri, sé sjálfsögð, og ég mun einnig fylgja hinum brtt. hans.

Að síðustu vil ég segja það, að mér finnst miklu eðlilegra að breyta sveitarstjórnarlögunum, bæði hvað þetta snertir og eins þeim ákvæðum þeirra, sem úrelt eru orðin, heldur en koma fram með þetta frv., en engu að síður mun ég geta fellt mig við þetta í heimildarlagaformi, ef brtt. hv. þm. Barð. ná þá fram að ganga.