26.01.1951
Efri deild: 56. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í B-deild Alþingistíðinda. (1379)

49. mál, sveitarstjórar

Frsm. meiri hl. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af brtt. hv. minni hl.

Þá er fyrst brtt. hans við 5. gr. Hv. minni hl. telur hana vera í samræmi við þá breyt., sem búið er að gera á frv. Ég held, að það geti ekki staðizt, heldur sé hér aðeins um að ræða nánari skilgreiningu á því, hvaða störf sveitarstjóranum skulu falin. Sá maður, sem mundi vera ráðinn til þess eins að veita forstöðu togaraútgerð sveitarfélagsins, hafnarmálum, vatnsveitu eða slíku, mundi aldrei vera kallaður sveitarstjóri. — Þá vill hv. minni hl. einnig láta fella niður það ákvæði, að starfssvið sveitarstjóra og verkaskipting milli hans og oddvita skuli ákveðið með samþykkt um stjórn sveitarfélagsins, en þetta er sambærilegt og þegar lög eru ekki tæmandi og nánar kveðið á í reglugerð. — Þá hefur nokkuð verið rætt um 2. málsgr. 6. gr., um það, hvort heppilegt sé, að umboð hreppsnefndarmanns falli niður, ef hann gerist sveitarstjóri, eða ekki. Mér finnst eðlilegt, að sá maður, sem fær jafnmikið vald og sveitarstjóri, sitji ekki áfram í hinum fámennu hreppsnefndum. Ég get ekki séð, að slíkt sé neinum vandkvæðum bundið og að varamenn geti auðveldlega tekið við af aðalmanni, sem gerist sveitarstjóri, en sessunautur minn, hv. 2. þm. S–M., var að skjóta því að mér, að í sumum sveitarfélögum væru engir varamenn og mundi þá þetta fyrirkomulag reynast óheppilegt á þeim stöðum, þ.e. stöðum, þar sem ekki er kosið í hreppsnefnd með hlutfallskosningu. — Viðvíkjandi því, sem bent hefur verið á orðalag í 8. gr., þá er þar um beint eftirtektarleysi að ræða, að þar skuli standa „eða“ í staðinn fyrir „og“, og mun ég leggja til, að því verði breytt, ef það verður áfram í frv. En viðvíkjandi því að fella niður þá grein, þá finnst mér það ekki alveg sjálfsagt, ef sveitarstjóra er sagt upp, að þá taki oddviti við starfi hans, unz annar verður ráðinn í hans stað, en það þarf á einhvern hátt að sjá þessu borgið og eitthvað verður að koma í staðinn, ef þessi grein verður felld niður, en ég get fallizt á það, sem hæstv. dómsmrh. sagði um fyrri hluta þessarar greinar, en um það, hver taki við starfi sveitarstjóra, ef hann fer frá, verða að vera einhver ákvæði.