26.01.1951
Efri deild: 56. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í B-deild Alþingistíðinda. (1381)

49. mál, sveitarstjórar

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Hæstv. forseti er þegar búinn að svara því, sem ég hefði svarað, að þetta, sem hv. þm. N-M. ræddi um, varðaði ekki málið, sem hér er til umr. Það ætti frekar heima í lögfræðilegum spurningatíma heldur en að það heyri undir umr. um það frv., sem hér er um að ræða. Það er auðvitað algert matsatriði í hvert sinn, eins og hv. 1. þm. N-M. tók fram, sem hann spurði um. Nú hef ég að vísu miklar mætur á þessum hv. þm. og met hann mikils, en ég er þó svo lífsreyndur, að ég vildi heyra hinn aðilann skýra sína hlið málsins, áður en ég mundi kveða upp endanlegan dóm um þessi tilfelli, sem þessi hv. þm. vitnaði til. — En ég mundi vilja spyrja hv. þm. á móti, hvort hann teldi ekki vítavert hirðuleysi af þm., ef hann t.d. vitnaði í ákveðnar umr. á Alþ. og segði, að tiltekinn maður hefði tekið þátt í þeim, og að það sannaðist svo, að sá hv. þm. hefði ekki verið þá á þingi, og hvaða viðurlögum ætti að beita gagnvart þessum hv. þm., sem þannig hefði farið að ráði sínu.