26.01.1951
Efri deild: 56. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í B-deild Alþingistíðinda. (1382)

49. mál, sveitarstjórar

Haraldur Guðmundsson:

Ég skal ekki lengja umr. um þetta mál, sem er þrautrætt og hvorki frv. né brtt. gefa tilefni til langra umr. Vildi ég þó segja út af 1. brtt. á þskj. 527, þar sem segir: „Sveitarstjóra má fela störf þau, sem oddvita eru falin í sveitarstjórnari., önnur en stjórn á fundum hreppsn., og hefur hann þá á hendi framkvæmd þeirra málefna hreppsins“, að mér þykir þetta fráleitt, eins og hv. flm. brtt. sýndi fram á með rökstuðningi sínum fyrir till., því þó að menn séu ráðnir til þess að stjórna ýmsum fyrirtækjum, svo sem vatnsveitum, rafmagnsveitum o.s.frv., þá er það alls ekki starf sveitarstjóra, hvorki eftir almennum stjórnarháttum í slíkum málum né eftir þessu frv. Það eru hin almennu málefni sveitarstjórnar, sem koma inn í starfssvið þeirra manna, sem eftir þessu frv. nefnast sveitarstjórar. — Viðkomandi brtt. við 6. gr., um að 2. málsgr. falli niður, þá er hér um það atriði að ræða, sem var í frv., sem lá hér fyrir þinginu í fyrra, sem sagt um það, hvort sveitarstjórar ættu að vera pólitískir eða ekki, þá var það upphaflega svo, meðan þetta átti að vera skylda, en ekki heimild, að í vissum tilfellum skyldu sveitarstjórar vera fastir starfsmenn sveitarfélaganna, sem gætu aldrei starfað sjálfir sem hreppsnefndarmenn. Þetta eru leifar frá því, að frv. var í þessari mynd, og ég sé ekki, að það skipti miklu máli hvort þessi síðari hluti málsgr. er eða ekki. — Út af því, að hæstv. dómsmrh. taldi 8. gr. óþarfa, vil ég segja, að ég er ekki viss um, að þetta sé rétt skýring hjá hæstv. dómsmrh. Ég held, að vanræksla og hirðuleysi sé nokkuð teygjanlegt orð, þannig að mjög hæpið sé, að það yrði metið eftir almennum lagaákvæðum eða réttarreglum afgerandi, hvort hægt væri, samkv. þessum l., ef frv. verður samþ. óbreytt, að víkja manni úr sveitarstjórastöðu fyrir þessi afbrot. Nú skulum við segja, að svo fari, að sveitarstjórn telji, að sveitarstjóri hafi gert sig sekan um ítrekaða vanrækslu eða hirðuleysi og ekki skeytt áminningu, og þá skilst mér, að ef þessi gr. stendur í l., geti sveitarstjórn svipt sveitarstjóra starfi fyrirvaralaust. En sé þetta ekki í l., efast ég um, að hún geti það, nema að undangengnum dómi, sem sannaði, að sveitarstjóri hefði brotið af sér með vanrækslu eða hirðuleysi í starfi sínu. Hins vegar er augljóst mál, að hafi sveitarstjóri ekki framkvæmt ályktanir sveitarstjórnar og vanrækir að gera það eða hirðir ekki um það, þá getur ekkert samstarf þarna verið á milli. Í stuttu máli, með því að hafa gr. svona í l., þá er það sveitarstjórnar að meta, hvort vanræksla eða hirðuleysi í þessu er fyrir hendi. Ef svo kemur til dómstóla um það, hvort rétt hefði verið að víkja manni frá starfi, þá geta þeir kannske orðið skaðabótaskyldir, sem véku honum frá, en þeir hefðu þó mátt víkja honum frá samkv. þessari gr., ef hún stæði í l.