26.01.1951
Efri deild: 56. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í B-deild Alþingistíðinda. (1383)

49. mál, sveitarstjórar

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það má lengi deila um það, hvað sé í l., og sízt vildi ég segja neitt um það nú, hvernig dómstólarnir litu á í þessum efnum í einstökum tilfellum, en mér dettur ekki annað í hug en að sveitarstjórnin hefði heimild til þess að víkja manni frá starfi fyrirvaralaust, þó að ekki væri tekið neitt fram um það í l. En hann gæti fengið skaðabætur dæmdar sér, ef honum hefði verið ranglega vikið frá, — eða ef til vill fengið sig settan í starfið aftur, en til þess að það geti orðið, að hann fái skaðabætur, þá þyrfti hann að fá aðstoð dómstólanna til þess. En yfirleitt mundi verða talið mjög hæpið, að hann gæti fengið sig settan í starfið á ný, jafnvel þó að honum hefði verið vikið án gildra ástæðna úr starfi, þó að ekkert sé að vísu um þetta í þessu frv., því að með dómi öðlast maður vitanlega ekki rétt til þess að rækja þetta starf, og sá aðili, sem hann ræður, er ekki skyldugur til þess að láta hann vinna starfið, ef hann álítur, að sveitarstjóri hafi ekki rækt starfið nógu vel.

Ég skal ekki segja, hvernig dómstólarnir mundu líta á þetta, en það er rétt, sem hv. þm. sagði, að gr. er ekki óþörf, af því að hún ákveður um, í hvaða tilfellum má víkja sveitarstjóra fyrirvaralaust. En hreppsnefndir mundu sennilega ekki deyja ráðalausar, þó að þetta væri ekki berum orðum tekið fram í l.